149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

skerðingar í bótakerfinu.

[15:36]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Í gangi er vinna við að endurskoða almannatryggingakerfið þegar kemur að örorkulífeyrisþegum. Þar undir eru m.a. umræður um hvernig draga skuli úr skerðingum og með hvaða hætti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, sem nú er í vinnslu þingsins í fjárlaganefnd og ég held að sé ráðgert að ræða við 2. umr. í næstu viku, er tillaga um að 4 nýir milljarðar skuli nýttir til að bæta stöðu þessa hóps. Þeir verða m.a. notaðir til að draga úr skerðingum.

Niðurstaða þingsins varðandi fjárlög hlýtur að skýrast síðar í þessum mánuði eða næsta mánuði og fyrir 1. janúar mun félagsmálaráðherra setja reglugerð sem miðar að því að ákveða hvernig þessum fjármunum skuli varið. Í þeirri vinnu verður horft til endurskoðunarvinnu á almannatryggingakerfinu sem stendur yfir, og samtals við Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp.