149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[15:45]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ekki seinna vænna að eiga sérstakar umræður í sal Alþingis um öryggis- og varnarmál nú þegar Trident Juncture, umfangsmestu heræfingu undanfarinna ára á vegum Atlantshafsbandalagsins, er nýlokið á Íslandi, í Norður-Atlantshafinu og í Noregi.

Það er ekki eingöngu þessi einstaka heræfing sem knýr á um það að við ræðum um öryggis- og varnarmál hér á Alþingi heldur líka þær aðstæður sem hafa verið að þróast í heimsmálunum; versnandi horfur á alþjóðasviðinu í öryggismálum, meira óöryggi í samskiptum stórvelda, hótanir þeirra á milli um beitingu kjarnavopna og sífellt harðnandi samskipti Vesturlanda við Rússa í austri — eitthvað sem minnir óneitanlega á kaldastríðsárin sem ekkert okkar hefði getað séð fyrir að myndu endurbirtast með einum eða öðrum hætti á ný í samskiptum þjóða í okkar heimshluta árið 2018.

Við þessar aðstæður þarf skýra sýn. Stefna Íslands í öryggis- og varnarmálum þarf að vera skýr og markviss. Vissulega þarf að laga sig að breyttri stöðu og að breytilegu valdajafnvægi milli valdamestu ríkja heims, sér í lagi vegna landfræðilegrar legu Íslands en ekki síður — og kannski enn frekar — vegna stöðu okkar á alþjóðavettvangi sem sjálfstæðrar þjóðar.

Í umræðum hér í þingsal fyrir hálfu ári, í umræðum um utanríkismál í fjármálaáætlun, lýsti ég yfir verulegum áhyggjum mínum af því að í henni væri veruleg bein aukning á fjármunum og mikil hlutfallsaukning á framlagi Íslands innan NATO til að tryggja varnir Íslands næstu fimm árin. Þessi mikla aukning — sem er þreföld miðað við fjármálaáætlun þar á undan og það er ekki lítið — þarfnast mun ítarlegri umræðu á þinginu en verið hefur. Ég vonast eftir því að við getum notað þessa umræðu til þess nú hálfu ári síðar, því að við verðum að ræða það með opnum og hreinskilnum hætti ef staðan er orðin þannig, þegar kemur að hernaðarlegu mikilvægi Íslands í Norður-Atlantshafi, að Atlantshafsbandalagið, í samráði við íslensk stjórnvöld, telji brýnt að auka fjármuni verulega til að tryggja varnir Íslands. Það þarf að ræða það opinskátt og hreinskilnislega á opinberum vettvangi að við séum nú árið 2018 að styðja við tímabundna viðveru erlends herliðs á Íslandi, líkt og kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 2016 — og þessi mikla aukning fjármuna gefur skýrt til kynna áframhald á þeirri viðveru.

Sömuleiðis þurfum við að geta rætt birtingarmyndir þessa á borð við nýja stjórnstöð hernaðaraðgerða NATO sem sett var á fót í Norfolk í Bandaríkjunum í sumar vegna endurskipulagningar herstjórnarkerfis Atlantshafsbandalagsins, vegna breyttra aðstæðna, og aukið samráð íslenskra stjórnvalda við flotastjórn Atlantshafsbandalagsins. Við hljótum að vera sammála um að allar þessar breytingar, sem verða í ljósi stigvaxandi hernaðarlegs mikilvægis Norður-Atlantshafsins, og þar með Íslands að mati NATO sjálfs, þarf að ræða á þinglegum vettvangi.

Herra forseti. Ísland er með þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var í nóvember árið 2015. Nú fyrir nokkrum dögum var gefin út fyrsta áfangaskýrslan um framkvæmd hennar. Undanfari stefnunnar var skýrsla um áhættumat um Ísland. Þegar þjóðaröryggisstefna Íslands var lögð fyrir Alþingi og loks samþykkt í nóvember 2016 hafði verið lagt nýtt áhættumat á hernaðarógn í öryggisumhverfi Evrópu. Það mat leiddi í ljós að hætta á hernaðarógn á norðurslóðum var talin takmörkuð. En miðað við aukið umfang öryggis- og hernaðarviðveru á Íslandi og aukna fjármuni í þann málaflokk, er þá ekki komið að því að leggja nýtt áhættumat fram um hernaðarógn sem kann eða kann ekki að steðja að okkur? Ég legg til að það áhættumat verði ekki kynnt í lokuðum leyniherbergjum sérvalins þjóðaröryggisráðs heldur verði rætt á opinberum vettvangi.

Herra forseti. Í 1. gr. þjóðaröryggisstefnu Íslands er kveðið skýrt á um að tryggja beri víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi. Þetta er mjög falleg setning. En hvernig hefur okkur gengið að uppfylla þessi fallegu og góðu fyrirheit? Hvernig í ósköpunum getum við uppfyllt 1. gr. þjóðaröryggisstefnu okkar á sama tíma og við greiðum atkvæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í júlí sl., gegn nýjum sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum? Þá greiddu 122 ríki atkvæði með sáttmálanum og var hann samþykktur, sem betur fer, en Ísland greiddi atkvæði gegn sáttmálanum.

Er það kannski hárrétt hjá Beatrice Finn, framkvæmdastýru ICAN, sem fékk friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári, þegar hún sagði í viðtali fyrir nokkrum dögum að sem meðlimur NATO sé Ísland hluti kerfisins sem viðheldur kjarnavopnum? Að Ísland sé í hópi ríkja sem séu þögul eða meðsek í þessu máli og leyfi ástandinu sem viðheldur kjarnavopnum að viðgangast í sínu nafni? Getur það virkilega verið að Ísland sé ekki að uppfylla 1. gr. (Forseti hringir.) sinnar eigin þjóðaröryggisstefnu?

Ég tek alla vega undir með framkvæmdastjóra ICAN sem segir að Ísland þurfi að taka afstöðu. Vilja íslensk stjórnvöld vinna að heimi án kjarnorkuvopna eða vera meðsek í þessu nýja vígbúnaðarkapphlaupi?