149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[15:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að kalla eftir þessari umræðu.

Þjóðaröryggisstefnan sem samþykkt var hér á Alþingi er leiðarljós okkar í öryggis- og varnarmálum. Hún felur jafnframt í sér virka utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggi og nær því heildstætt yfir öryggis- og varnarmál. Ég hvet alla þingmenn til að kynna sér nýútkomna skýrslu þjóðaröryggisráðs um framkvæmd stefnunnar.

Hornsteinar varna landsins eru samkvæmt stefnunni varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og aðild að Atlantshafsbandalaginu. Þá hefur samstarf Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum farið vaxandi og samráð við nágrannalöndin hefur aukist. Ísland hefur ekki herafla og tekur því þátt í öllu varnarsamstarfi við bandalags- og samstarfsríki á borgaralegum grunni. Versnandi horfur í öryggismálum á alþjóðavísu og breytt öryggisumhverfi í Evrópu hafa kallað á aukin umsvif Bandaríkjahers og annarra bandalagsríkja á norðanverðu Atlantshafi. Varnaræfingin Trident Juncture ber þess glöggt vitni að bandalagsríki okkar, og raunar Norðurlönd utan bandalagsins, telja ærna ástæðu til að tryggja betur öryggi á Norður-Atlantshafi enda eru opnar siglingaleiðir forsenda liðsflutninga og varna ef veita þarf aðstoð í Evrópu.

Ísland hefur auk þess beitt sér fyrir afvopnun og vopnatakmörkunum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og innan þeirra samninga sem Ísland er aðili að. Dæmi um slíkt er sameiginleg formennska okkar með Írum sl. ár vegna framkvæmda samnings um eftirlitskerfi með flugskeytatækni.

Við vinnum náið með öðrum Norðurlandaþjóðum og erum meðal þeirra ríkja innan Atlantshafsbandalagsins sem leggja hvað mesta áherslu á afvopnun. Nýafstaðin ráðstefna Atlantshafsbandalagsins með samstarfsríkjum hér í Reykjavík 29.–30. október endurspeglar þessar áherslur. Auk hefðbundinna varna og afvopnunar hefur verið lögð áhersla á að byggja upp þekkingu og varnir gegn hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og netógnun. Utanríkisráðuneytið kemur að þessari vinnu sem byggir á samstarfi ráðuneyta, stofnana og einkaaðila, svo og alþjóðlegu samstarfi.

Aukin umsvif á Norður-Atlantshafi og uppbygging viðbragðsgetu vegna annarra ógna er afleiðing af breyttu öryggisumhverfi. Því er það grunnstef í þjóðaröryggisstefnunni að hlúa að víðtækum öryggishagsmunum í alþjóðasamstarfi sem byggjast á nánum tengslum friðar, öryggis og þróunar, virðingu fyrir mannréttindum og alþjóðalögum og friðsamlegri lausn deilumála.

Ég segi stundum að virðing fyrir alþjóðalögum sé okkar sverð og skjöldur. Í skjóli þeirra höfum við unnið okkar stærstu sigra sem þjóð. Gróf brot á alþjóðalögum eru því vægast sagt áhyggjuefni sem við höfum gagnrýnt í hvívetna. Sem dæmi má nefna brot á mannúðarlögum í Sýrlandi, beitingu efnavopna þar og á Bretlandseyjum og hertöku og ólögmæta innlimun Rússlands á Krímskaga sem við höfum fordæmt og mætt með samstöðuaðgerðum af ýmsum toga. Þá beitum við okkur gegn refsileysi og styðjum dyggilega störf alþjóðlega sakamáladómstólsins.

Við tölum ávallt fyrir friðsamlegum lausnum deilumála, hvort heldur sem er í Sýrlandi, Jemen, Vestur-Sahara eða Palestínu. Það gerði ég t.d. í ræðu minni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrr í haust. Rödd Íslands skiptir máli og getur haft áhrif ef rétt er með farið. Þetta höfum við séð skýrt í störfum okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem við eigum sæti nú. Áþreifanlegasta dæmið er ef til vill það að mannréttindasamtök segja að málflutningur okkar um Filippseyjar hafi haft greinileg áhrif til bóta þótt þar sé enn verk að vinna. Í fyrstu lotu okkar fyrr í haust höfum við komið afstöðu okkar á framfæri í brýnum málum á borð við stríðið í Jemen, ofsóknir gegn Róhingjum í Mjanmar, ástandið í Sýrlandi, Venesúela, Sádi-Arabíu og Íran, auk réttinda hinsegin fólks, jafnréttis kynjanna og réttindum aldraðra.

Á næstu dögum mun ég leggja fram þriðju landsáætlun Íslands um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Við leggjum þar mikla áherslu á aukna og þýðingarmeiri þátttöku kvenna í friðarferlum, m.a. í gegnum Jafnréttisháskóla Sameinuðu þjóðanna hér á Íslandi. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að auka framlag Íslands til þróunarsamvinnu og mannúðarmála jafnt og þétt næstu ár. Í drögum að nýrri þróunarsamvinnustefnu sem nú eru á þingmálaskrá er lögð sérstök áhersla á uppbyggingu félagslegra innviða og störf í þágu friðar og jafnframt fá mannréttindi og jafnréttismál enn meira vægi.

Á alþjóðavettvangi vinnum við ötullega að því að efla sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda sem eru ein forsenda sjálfbærrar þróunar og friðar. Þá er rétt að nefna að íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfulla áætlun um kolefnishlutleysi, sem er okkar stærsta framlag í baráttu gegn loftslagsbreytingum. (Forseti hringir.)

Framlög til varnarmála samkvæmt fjárlögum hafa aukist umtalsvert í samræmi við breytt öryggisumhverfi. Okkar framlag er ávallt borgaralegt, eðli máls samkvæmt, en við sem frjáls og fullvalda þjóð í (Forseti hringir.)100 ár hljótum að leggja okkar af mörkum til eigin öryggismála og varna.