149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[15:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Hún er mjög mikilvæg í mikilvægum málaflokki og ég vil sérstaklega þakka málshefjanda, hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland var samþykkt á Alþingi 13. apríl 2016 í formi þingsályktunar og er það í fyrsta sinn frá lýðveldisstofnun sem Alþingi samþykkir þjóðaröryggisstefnu. Í raun má spyrja sig hvers vegna slík stefnumótunarvinna hafi ekki verið sett á laggirnar löngu fyrr. Það má segja að umræðan hafi snúist um veru varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og hvort þar væru orrustuþotur á meðan stefnumótun í öryggismálum sat á hakanum.

Skilgreiningin á því hvað telst til öryggismála hefur verið að breytast mjög og náð til fleiri þátta en áður. Það hvílir rík skylda á stjórnvöldum að skilgreina vel mögulegar ógnir svo bregðast megi við þeim með viðeigandi og skipulögðum úrræðum.

Ein af þeim ógnum sem að okkur steðja og hefur vaxið mjög á allra síðustu árum eru falskar fréttir á netinu, falskar fréttir er beinast að sérstökum ríkjum eða hagsmunum ríkja. Þessi sérstaka ógn er ekki nefnd í þjóðaröryggisstefnunni. Brýnt er að bæta úr því að mínu mati við endurskoðun stefnunnar sem á að fara fram eftir rúm tvö ár. Ég ræddi þessa nýju ógn hér á síðasta þingi við hæstv. utanríkisráðherra. Fréttir þessar eru af margvíslegum toga og eiga það gjarnan sameiginlegt að tilgangur þeirra er að hafa neikvæð áhrif á hagsmuni, innlenda sem erlenda, þess ríkis er þær beinast að. Þær geta varðað viðskiptahagsmuni, kosningar og ímynd ríkis út á við, svo fátt eitt sé nefnt.

Á Norðurlöndunum hafa stjórnvöld markvisst unnið gegn áhrifum slíkra frétta með því að setja á laggirnar sérstök teymi sem hafa það hlutverk að finna slíkar fréttir, einkum á samskiptamiðlunum og bregðast við þeim. Að berjast gegn fölskum fréttum er þjóðaröryggismál og mikilvægt mál í hagsmunagæslu (Forseti hringir.) ríkja á alþjóðavettvangi. Mál sem við Íslendingar verðum að taka alvarlega.