149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:13]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur og hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir þessa mikilvægu umræðu hér í þingsal. Það er alveg augljóst að þörf er á dýpri umfjöllun um utanríkis-, öryggis- og varnarmál. Bæði þurfa þau að fá meira rými í þjóðfélagsumræðunni en einnig hér á Alþingi.

Við erum sífellt minnt á það hversu mikilvægt það er að þekking og skilningur á öryggis- og varnarmálum sé til staðar hér á landi. Það á við um stjórnsýsluna, pólitíkina, fræðasamfélagið og líka almenna umræðu.

Staðan í alþjóðamálum er oft og tíðum flókin og það eru ýmis mál sem skipta okkur meira máli en áður. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður sem við sjáum ekki alltaf fyrir. Breytt öryggisumhverfi heimsins felur í sér að setja þarf öryggis- og varnarmál í forgang; starf þjóðaröryggisráðs, samstarf Norðurlandanna, aukin framlög í málaflokkinn og fleira kemur þar inn. NATO hefur auðvitað m.a. brugðist við breyttum aðstæðum í heiminum með því að beina athygli sinni og sjónum í vaxandi mæli til okkar heimshluta. Við höfum einnig aukið framlög okkar til varnarmála og þurfum að halda áfram á þeirri braut og leggja áherslu á aukna þátttöku í borgaralegum verkefnum innan Atlantshafsbandalagsins en fjárlögin bera það með sér í samræmi við þjóðaröryggisstefnu Íslands.

Samstaða um þessi mál er lykilatriði. Virk þátttaka okkar í öryggismálum, líkt og annarra landa Evrópu, er mikilvæg og þar getum við lagt mikið til málanna.

Virðulegi forseti. Virðing fyrir alþjóðalögum og virkt alþjóðasamstarf er einnig mikilvægur þáttur í utanríkisstefnu Íslands. Við höfum lagt áherslu á að Ísland sé málsvari virðingar fyrir alþjóðalögum og að mannréttindi séu virt. Við höfum verið ófeimin við að láta í okkur heyra eins og hæstv. utanríkisráðherra kom inn á áðan. Að sama skapi höfum við látið til okkar taka í jafnréttismálum. Það er ánægjulegt að sjá að um það ríkir pólitísk samstaða allra flokka hér á Alþingi að Ísland sé í fararbroddi þegar kemur að jafnréttismálum, ekki bara hér á landi heldur út um allan heim. Það er ekki síður mikilvægur þáttur í utanríkisstefnu Íslands.

Eitt vil ég þó nefna í lokin: Ísland á með sama hætti að vera öflugur málsvari frjálsra viðskipta í heiminum. (Forseti hringir.) Það er ljóst að vaxandi hagsæld í heiminum síðustu 200 árin eða svo er að langmestu leyti byggð á frjálsum viðskiptum milli ríkja. Frjáls viðskipti eru ekki sjálfgefin og þeim er stöðugt ógnað, hvort sem er vegna stríðsástands, náttúruhamfara í víðu samhengi og ekki síst vegna ólíkra viðhorfa milli stjórnmálamanna. (Forseti hringir.) Frjáls ríki eins og okkar byggir efnahag sinn að miklu leyti á frjálsum viðskiptum og við eigum að vera í fararbroddi í umræðu um frjáls viðskipti milli landa hvar sem er í heiminum.