149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:22]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp, það skiptir okkur miklu máli. Umræðan um öryggis- og varnarmál á Íslandi er samofin staðsetningu landsins hér úti í miðju Atlantshafi. Í kalda stríðinu var þetta svo augljóst, en eftir að þeirri togstreitu lauk minnkaði mikilvægi landsins í valdatafli stórveldanna. Nú er annað upp á teningnum. Augu manna beinast æ meir til norðurslóða eftir að siglingaleiðir tóku að opnast á pólsvæðinu og er fyrirsjáanlegt að siglingar og önnur umsvif muni stóraukast á svæðinu í náinni framtíð. Þau auknu umsvif kalla á að við Íslendingar höldum vöku okkar.

Ógnirnar eru margar, ekki bara hernaðarlegar, vegna breytinga í alþjóðamálum sem við höfum öll orðið vör við, heldur ekki síður frá sjónarhóli umhverfismála og út frá öryggissjónarmiðum. Þar getum við ekki setið hjá, einfaldlega vegna þess að umhverfisslys í grennd við landið getur orðið okkur ansi dýrkeypt. Bæði verðum við að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu með þjóðum á svæðinu og leggja þar til okkar sjónarmið sem hljóta að vega þungt — við erum hér úti í miðju Atlantshafi, höfum að miklu leyti byggt afkomu okkar á afurðum sjávar og höfum tekist á við Ægi um aldir. Einnig verðum við að vera þátttakendur í öryggismálum á svæðinu í kringum landið því að siglingar munu vafalítið stóraukast fram hjá landinu og við verðum að vera í stakk búin til að geta brugðist við ef vá ber að dyrum.

Hér á einnig við að nauðsynlegt er að efla Landhelgisgæsluna af tækjum, skipum og búnaði en einnig lögregluna, ekki síst landamæragæsluna, sem við megum ekki vanrækja. Hún er auðveld hér að því leyti að langflestir, eða 19 af hverjum 20, sem heimsækja landið koma inn á einum og sama staðnum, þ.e. í Keflavík.