149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:25]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Eins og ég nefndi áðan er áætlað að meðalhækkun sjávar á næstu áratugum geti numið 1,2 m. Það er að því gefnu að við náum að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda hér um bil strax og einnig að vesturhluti suðurskautslandsins renni ekki af stað út í sjó. Þá yrði talan mun hærri. Ég hef ekki beinar áhyggjur af því að borgir á Íslandi fari í kaf en það mun geta leitt af sér vonda hluti ef þetta raungerist.

Aukin harka milli Bandaríkjanna og Rússa og annarra leikenda í heiminum um þessar mundir, í samspili við þessa loftslagsvá, er hættuleg. Hættan er sú að með því að gefast upp á þessum samningum sem hafa verið nefndir fari af stað höfrungahlaup á borð við það sem við sáum á kaldastríðstímanum, þegar lönd heims vopnuðust opinberlega og reyndu að ná að verða ofan á í nýju ógnarjafnvægi.

Þetta nýja ógnarjafnvægi má ekki verða til. Til að sporna við því verður jöfnum höndum að gera kröfur til okkar bandamanna og til annarra um að koma að borðinu og greiða úr deilumálum í því skyni að stöðva þetta strax. Því þætti mér eðlilegt að Ísland, sem lítið friðsælt land, bjóði upp á alþjóðlega friðarráðstefnu sem allra fyrst, þar sem áhersla yrði lögð á þátttöku allra kjarnorkuveldanna. Markmiðið væri að ganga burt með samning sem snýr að því að einhverjum hluta sameiginlegra fjármuna heimsins til varnarmála verði varið í að verjast loftslagsbreytingum en ekki í að smíða fleiri vopn, eða að skýr rammi verði búinn til um hversu mikil vopnavæðing sé heimil.

Það er ekki oft sem mannkyninu gefst tækifæri til að sameinast gegn einum sameiginlegum óvini en loftslagsvána má líta á sem öryggisógn við allar þjóðir.