149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka bæði málshefjanda og þingmönnum fyrir afskaplega málefnalega og góða umræðu. Ég er algerlega sammála því að við ættum að ræða þessi mál oftar. Ég get ekki farið í gegnum allt það sem hér kom fram en er ánægður með hversu hv. þingmenn ræddu þetta, sem rétt er, út frá breiðu sjónarhorni. Ég vildi setja nokkra hluti fram hér í umræðunni.

Í fyrsta lagi eru allir sammála, alla vega við hér, um markmiðið um heim án kjarnavopna. Við höfum sem betur fer náð árangri í gegnum Atlantshafsbandalagið í fækkun kjarnavopna. Það er ekki gagnstætt. Frá lokum kalda stríðsins hefur kjarnavopnum fækkað um 95% í gegnum stefnu Atlantshafsbandalagsins. Það er mjög mikilvægt að þessir kjarnorkusamningar haldi. Þá verða menn eðli máls samkvæmt að fara eftir þeim, þ.e. þeir sem að þeim koma. Þegar menn tala um ICAN-samninginn má geta þess að Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hóf að gagnrýna Rússa árið 2013, vegna þess að þeir væru ekki að fara eftir samningnum.

Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, það hefur enginn úti í hinum víða heimi gert athugasemdir við að orðið NATO vanti í stjórnarsáttmálann. Við erum með þyrlusveit sem við getum verið stolt af. Hún er á vegum Landhelgisgæslunnar og við eigum að efla hana og styrkja enn frekar. Það er það sem við erum að gera, við erum að leggja áherslu á það í langtímafjármálaáætlun.

Við eigum líka að ræða um samstarfið á norrænum vettvangi. Í forystu okkar í norræna samstarfinu legg ég áherslu á, og það verður gert á næsta ári, Stoltenberg-skýrsluna sem er mikilvægt innlegg í þá umræðu. Skýrslan verður tekin fyrir á ráðstefnu og við metum það hvernig gekk að framfylgja þeim tillögum sem þar eru — þær eru margar mjög góðar, m.a. út frá öryggis- og varnarmálum — og hvað við getum gert meira. Þrátt fyrir að Svíar og Finnar séu ekki í Atlantshafsbandalaginu eru þeir nánustu samstarfsríki Atlantshafsbandalagsins. Það er mikill vilji meðal norrænna kollega minna og norrænna ríkisstjórna að við vinnum þétt saman í öryggis- og varnarmálum og þá í víðu samhengi. Það er eitthvað sem við eigum að fagna og eigum að gera.