149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

stofnun rannsóknarseturs um utanríkis- og öryggismál.

238. mál
[16:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina og umræðuna sem hún fær í þingsal. Það er þörf á því að ræða oftar um utanríkis- og öryggismál og umgjörð þeirra og hvernig við þjónum best því markmiði að efla fræðslu og upplýsingamiðlun um þessi mikilvægu mál.

Umrædd tillaga um stofnun rannsóknarseturs um utanríkis- og öryggismál var sett fram í skýrslunni um utanríkisþjónustu til framtíðar sem hluti af aðgerðum til að örva umræðu um utanríkismál. Líkt og aðrar tillögur í skýrslunni hefur hún fengið ítarlega skoðun og er enn til umfjöllunar í utanríkisráðuneytinu. Því er þessi umræða kærkomin. Tillaga um stofnun rannsóknarseturs um utanríkis- og öryggismál á sér raunar forsögu, eins og hv. þingmaður vísaði til, því að árið 2009 samþykkti Alþingi þingsályktun sem fól ríkisstjórninni að kanna grundvöll þess að setja á stofn slíkt rannsóknarsetur.

Árið 2012 vísaði ríkisstjórn Íslands þeirri þingsályktun til þverpólitískrar þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Nefndin leitaði fanga víða. Meðal annars var lögð fram samantekt um norræn rannsóknarsetur á sviði utanríkis- og öryggismála, auk þess sem hún kynnti sér störf rannsóknarsetursins í Noregi, NUPI. Nefndin taldi ekki fjárhagslegar forsendur fyrir því að stofna slíkt setur og því var það ekki hluti af tillögum sem nefndin lagði fram árið 2014 og undirbyggðu síðar þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og stofnun þjóðaröryggisráðs. Nefndin gat þess þó að rétt væri að endurskoða þá afstöðu þegar aðstæður leyfðu. Fyrir vikið er tillagan í skýrslunni um utanríkisþjónustu til framtíðar sérstaklega tengd þjóðaröryggisráði og raunar einnig Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands sem vinnur gott starf í þessa þágu.

Í lögum um þjóðaröryggisráð, sem samþykkt voru árið 2016, er m.a. kveðið á um að ráðinu beri að beita sér fyrir opinni umræðu um þjóðaröryggismál og fræðslu og upplýsingagjöf um þau mál í samstarfi við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla.

Eins og staðan er núna, m.a. með hliðsjón af skynsamlegri nýtingu fjármuna, er til skoðunar skipulagt samstarf utanríkisráðuneytisins og þjóðaröryggisráðs um eflingu umræðu um öryggismál enda eru utanríkismál mikilvægur þáttur í þjóðaröryggisstefnu Íslands.

Forsætisráðuneytið, sem fer fyrir þjóðaröryggisráði, og utanríkisráðuneytið hafa í samstarfi við Alþjóðamálastofnun HÍ og fleiri aðila, líkt og Varðberg, beitt sér fyrir upplýstri umræðu um utanríkis- og öryggismál í anda laganna um þjóðaröryggisráð. Nærtækasta dæmið er vel sótt ráðstefna um afvopnunarmál sem haldin var í lok nýliðinnar viku.

Nú stendur fyrir dyrum að gera rammasamning við Alþjóðamálastofnun og mögulega fleiri háskólastofnanir og hugveitur til að efla umræðu um ýmis utanríkismál, þar með talið öryggis- og varnarmál. Þjóðaröryggisráð hyggst standa fyrir ráðstefnum og upplýsingamiðlun af ýmsum toga, m.a. í tengslum við fullveldisafmælið.

Þá vinnur utanríkisráðuneytið að því að auka umræðu um verkefni utanríkisþjónustunnar og utanríkismál almennt með skýrslugjöf og þátttöku í málþingum og viðburðum. Það var raunar önnur tillaga í skýrslunni um utanríkismál til framtíðar að efla upplýsinga- og miðlunardeild ráðuneytisins í þessu skyni. Aukið samráð við atvinnulífið og félagasamtök er liður í því.

Þá hefur grunnur verið lagður að skilvirkari upplýsingamiðlun frá sendiskrifstofum á stjórnarráðsvefnum og samfélagsmiðlum. Þegar hefur því eitthvað verið aðhafst til að ná fram markmiðum tillögunnar sem hv. þingmaður spyr um. Það kemur vissulega til greina að framkvæma tillöguna eins og hún kemur fram í skýrslunni, en mér finnst líka eðlilegt að horft sé til þess starfs sem þegar er unnið í þjóðaröryggisráði lögum samkvæmt og í fyrirhuguðum samningum við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og fleiri.

Eins og sakir standa stendur utanríkisþjónustan frammi fyrir átaksverkefnum á borð við formennsku í Norðurlandasamstarfi og Norðurskautsráði, setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og í stjórn Alþjóðabankans. Öll þessi verkefni veita tækifæri til aukinnar umfjöllunar um utanríkismál í fjölmiðlum og samfélaginu öllu. Í aðdraganda þeirra hefur verið haft víðtækt samráð við frjáls félagasamtök, atvinnulífið og háskólasamfélagið, sem einnig ýtir undir virka umræðu um utanríkis- og öryggismál, tengd mál í víðum skilningi.

Við þær aðstæður er ástæða til að forgangsraða við nýtingu fjármuna í góðu samstarfi við þjóðaröryggisráð og háskólahugveitur. Við þurfum ávallt að sýna ráðdeild rétt, eins og þingmannanefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu komst að niðurstöðu um, og leita hagkvæmra leiða. En um markmiðið erum við sammála.

Ég vil aftur þakka hv. fyrirspyrjanda, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrir að stofna til umræðunnar, sem ég mun gjarnan taka mið af í lokavinnslu þeirrar vinnu sem nú fer fram í ráðuneytinu.