149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

stofnun rannsóknarseturs um utanríkis- og öryggismál.

238. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og fagna því að finna þennan mikla áhuga á að við verðum á tánum varðandi öryggi okkar og varnir. Öryggi og varnir fyrir Ísland felast annars vegar í því að halda uppi rannsóknum og skoða gaumgæfilega hvað við þurfum að gera til að tryggja öryggi þjóðarinnar. Þar liggur ábyrgðarhluti íslenskra stjórnvalda. Síðan er það hitt hvernig við getum raunhæft byggt varnarumhverfi okkar. Það er m.a. í gegnum leit og björgun. Við þurfum að huga að því að það verði tryggt líka og það getum við einfaldlega ekki gert án NATO. Hvernig vitum við þetta? Við þurfum einmitt á sjálfstæðum rannsóknum að halda innan lands. Það er vissulega virðingarvert að það komi innan úr utanríkisráðuneytinu en ég held líka, og er sannfærð um það, að við þurfum að efla íslenskar rannsóknir til að geta greint þá áhættu og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Fyrr í dag hafa þær verið nefndar, t.d. ýmsar áskoranir varðandi netöryggi, varðandi umhverfismál svo að ekki sé talað um falskar fréttir o.s.frv.; allt sem getur ógnað samfélagi okkar og öryggi, bæði hér innan lands og í næsta nágrenni. Það eru ýmsar nýjar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Það hafa liðið um tíu ár frá því að þetta var samþykkt í þeim anda að við ættum að einbeita okkur betur á þessu sviði. Ég hvet því hæstv. ráðherra, og ég efast ekki um að hann fái til þess stuðning, til að taka þessi mál föstum tökum og að við eflum rannsóknir og eflum vinnu á þessu sviði, hvort sem er í gegnum Alþjóðamálastofnun eða aðra fræðimenn sem geta veitt okkur liðsinni í því að móta og tryggja öryggisstefnu landsins.