149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

stofnun rannsóknarseturs um utanríkis- og öryggismál.

238. mál
[16:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil aftur þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda og öðrum þeim hv. þingmönnum sem hér tóku þátt í þessari umræðu. Það er samt ákveðinn misskilningur í gangi þegar sagt er að það séu tíu ár síðan þetta var samþykkt. Þetta fór í ákveðið ferli og niðurstaðan var sú í þingmannanefndinni sem var falið þetta verkefni að koma ekki með tillögu um að fara þessa leið þegar hún lagði fram tillögurnar um þjóðaröryggisstefnuna. Þess vegna var þetta í tillögum um utanríkisþjónustu til framtíðar.

Síðan er það hárrétt sem hér hefur komið fram og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fór í gegnum áðan að við verðum að hafa sjálfstæðar rannsóknir. Ég tel að vísu að við eigum að vinna náið með öðrum sambærilegum stofnunum, sérstaklega á Norðurlöndunum. Ég hef rætt það við kollega mína sem hafa tekið því mjög vel. Það er engin ástæða fyrir okkur að finna upp hjólið. Auðvitað eru menn oft að takast á við það sama, gera greiningar á sömu hlutunum. Við eigum ekki að hika við að vinna með öðrum aðilum. Þess vegna lít ég til háskólasamfélagsins og þess vegna lít ég til hugveitna og frjálsra félagasamtaka. Ef það eru einhverjir sem eiga að passa það að vera ekki í tvíverknaði þá eru það við Íslendingar, sem erum 350 þúsund. Það ætti að vera mjög einfalt fyrir okkur að skipuleggja okkur þannig að ekki sé verið að gera sömu hlutina á mörgum stöðum.

Það er af mjög mörgu að taka. Í umræðunni í dag hefur verið rætt um hinar ýmsu ógnanir. Netöryggi hefur margoft verið nefnt, sömuleiðis umhverfismálin. Annað mál sem hefur verið tekið upp og menn nefndu í umræðunni er að út af auknum umsvifum á norðurslóðum þá eykst auðvitað hættan á umhverfisslysum sem er gríðarlega mikil vá fyrir Íslendinga.

Þessi tillaga er þarna vegna þess að hin var ekki framkvæmd, þess vegna er hún í tillögum um utanríkisþjónustu til framtíðar. Ég fagna áhuga hv. þingmanna. Þetta kostar að vísu allt peninga og jafnvel þó að þetta séu ekki dýrustu útgjöld sem (Forseti hringir.) um ræðir getur verið alveg ótrúlega erfitt að finna jafnvel litlar upphæðir í málaflokkum. En við skulum sjá hverju fram vindur.