149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

hámarkshraði.

115. mál
[16:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég lagði fram þessa fyrirspurn til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um miðjan september og síðan var frumvarpi hæstv. samgönguráðherra um breytingu á umferðarlögum, útbýtt þann 10. október, að mig minnir Það er reyndar heildstæð löggjöf. Þar er kveðið á um að hægt verði að fara upp í 110 km á klukkustund á ákveðnum svæðum og brautum, væntanlega þar sem öryggi og aðstæður leyfa.

Ég fagna því að þessi vilji komi fram. Það er í rauninni heimilt með lögum, þar sem aðstæður leyfa, að fara upp í 100 km, en það er á mjög fáum stöðum. Sú heimild hefur hins vegar aldrei verið nýtt. Ég man að forverar hæstv. ráðherra í starfi hafa goldið varhug við því að hækka hámarkshraðann. Ég tel þó að við verðum að meta aðstæður og það er alveg ljóst að þegar eru komnir tvíbreiðir vegir eins og á næstum allri Reykjanesbrautinni.

Ég vil ekki bíða til 2033 eftir að hún verði tvöfölduð eins og lagt er til í samgönguáætlun. Þar sem aðstæður leyfa er alveg ljóst að við getum farið þessar leiðir og ekki síður nýtt tæknina. Við sjáum fram á að með nýrri tækni verði hægt að hafa hraðann breytilegan eftir því hvernig aðstæður eru, ef t.d. snjókoma eða önnur veðrabrigði mæla með öðrum hraða.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann og ráðuneyti hans muni beita sér fyrir þessu þegar hann fær þessa heimild af hálfu þingsins. Sér hann fram á að hann muni nota þá heimild? Á hvaða helstu stofnvegum sér hann þá fyrir sér að þetta muni verða gert?