149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

hámarkshraði.

115. mál
[16:58]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Meðan við ökum á bílum með orku úr jarðefnaeldsneyti er ein hlið hraðans, sem oft gleymist með öllu, aukinn útblástur gróðurhúsalofttegunda eftir því sem ökuhraðinn eykst.

Þegar hraðinn er aukinn úr 90 km á klukkustund í 110 eykst útblásturinn verulega og það ekki línulega heldur vel rúmlega það. Ég vil hvetja jafnt hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og hæstv. ráðherra til að hafa það í huga og halda 90 km hámarkshraða í bili. Við gætum hags okkar allra og umhverfisins með því að halda ökuhraða hóflegum.

Það kann vel að vera að með aukinni rafvæðingu bílaflotans og með fleiri vistvænum orkugjöfum sé hægt að skoða það, af því að þá minnkar gróðurhúsalofttegundalosunin, að hækka hámarkshraða á bestu vegum landsins.