149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

hámarkshraði.

115. mál
[17:00]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þegar hraðinn breytist á Reykjanesbrautinni úr 90 í 110 sparast fimm mínútur á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur eða öfugt. Ég hef litla samúð með því. En mesta hættan við akstur er ekki af of miklum hraða heldur af of miklum mismun milli hraðasta og hægasta ökutækisins á veginum. Einhverjir umferðarverkfræðingar hafa talað fyrir því að afnema hraðatakmarkanir, hreinlega vegna þess að bílstjórar eru alveg færir um að meta aðstæður sem heild. Þess í stað ætti að hanna umhverfið í kringum vegina til að móta þann hraða sem óskað er eftir hverju sinni.

En ég ætla ekki að ganga svo langt. Ég ætla samt að leggja það til, þar sem ökumenn eru almennt færir sem hópur, sem heild, um að meta aðstæður og greina, að við nýtum okkur tæknilausnir til að breyta hámarkshraðanum (Forseti hringir.) dýnamískt eftir því hvernig aðstæður eru hverju sinni og leyfum ökumönnum sem heild að njóta vafans.