149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

hámarkshraði.

115. mál
[17:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu og umræðu þingmanna sem var vissulega úr ólíkum áttum.

Ég veit ekki hvort hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur einhverja sérstaka gleði af því að snúa út úr orðum mínum. Ég var bara að fara nákvæmlega yfir það hvernig hlutirnir eru og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að hægt sé að beita þessari heimild. Það er ekki hægt við núverandi aðstæður. Engu að síður er í nýju frumvarpi til umferðarlaga talað um að mögulega sé hægt að fara upp í 110 km hraða á klukkustund. Það er hins vegar alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni að þá eykst útblástur ef bíllinn notar dísil eða bensín. Í Noregi eru menn reyndar að hanna slíka vegi með 110 km hámarkshraða og þar er ein af grundvallarspurningunum sem menn þurfa að svara í hönnuninni hvernig menn geti náð því markmiði að mæta loftslagsmarkmiðunum samhliða því að gera samgöngurnar greiðari.

Það er líka rétt sem hér hefur komið fram: Væri ekki gáfulegra í ljósi alvarlegra slysa og hversu þeim hefur fjölgað á síðustu árum að draga úr hraða? Þá er því til að svara að ef allir færu að fyrirmælum myndum við sjálfsagt sjá þann árangur að menn myndu aka með skynsamlegri hætti og fleiri slysum yrði forðað.

Lykilatriðið er að allir ökumenn hagi akstri eftir aðstæðum. Það sem við erum að gera á næstu 15 árum er að horfa heildstætt á það hvernig við byggjum upp vegakerfið. Verður það búið í lok þessa 15 ára tímabils, 2033, eins og þingmenn hafa gaman af því að tönnlast á eða verður því lokið á árinu 2029 eða 2030? Mörgum finnst mjög stutt í það þegar talað er um að banna nýkaup á dísil- og bensínbílum, en svo finnst mönnum það svakalega langt, þremur árum síðar, að þurfa að bíða eftir einhverjum vegi til 2033. En þá erum við að tala um heildstæða (Forseti hringir.) vegi, uppbyggða, þar sem við gætum m.a. nýtt þessa heimild að hækka hámarkshraða í 110 km hraða. Frumskilyrði er að aðstæðurnar séu fyrir hendi þannig að við fjölgum ekki slysum.