149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lítil sláturhús.

192. mál
[17:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Síðustu ár hefur verið sívaxandi umræða um mikilvægi þess að bændur geti boðið upp á fjölbreytt vöruframboð. Ástæður þess að það er mikilvægt eru margs konar. Í fyrsta lagi er smekkur neytenda á kjöti einfaldlega breytilegur. Þótt sumir séu fullkomlega ánægðir með lambalæri af handahófi vilja aðrir geta valið sér lambakjöt sem hefur fengið að hanga ákveðið lengi o.s.frv., og eru jafnvel tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir þá vöru.

Með því að bjóða upp á fjölbreyttari vöru ná bændur fram hagkvæmni í formi vörubreiddar, þ.e. fasti kostnaðurinn við framleiðslu kjöts deilist út á fleiri vöruflokka. Þó að enginn sé að halda því fram að hægt sé að leysa verkefni íslenskrar sauðfjárræktar með því einu að gera sauðfjárbændum auðveldara fyrir að slátra heima hjá sér er nýsköpun á borð við þetta hluti af lausninni, ekki síst með tilkomu fleiri ferðamanna.

Hluti bænda hefur þekkingu og áhuga á því að sinna þessum mörkuðum. Þá hefur regluverkið, sem við fjöllum hér um, í kringum slátrun verið viðamikið og flókið svo að erfitt hefur verið fyrir aðila að fá öll tilskilin leyfi því að lögin um heimaslátrun og vinnslu eru flókin og bændur hafa átt í erfiðleikum með nýsköpun. Það er í raun merkilegt að mega slátra dýrum heima til einkaneyslu en að um leið sé bannað að selja til annarra. Það má kannski segja að það geti verið jafn hættulegt fyrir þá sem búa á heimilinu að borða afurðina og aðra sem myndu neyta hennar.

Það hlýtur að skjóta skökku við að þeim sem hakkar kjötið og úrbeinar sé treyst fyrir því en ekki fyrir að slátra skepnunni. Þá hefur hár heimtökukostnaður hjá mörgum sláturhúsum verið afar íþyngjandi. Þessi hái heimtökukostnaður gerir að verkum að erfiðara er að stunda nýsköpun með vöruþróun. Ég tel að stóru sláturhúsin séu að gera sjálfum sér óleik með þessari verðlagningu. Ég held að hagsmunir bænda, sem eiga jú flest sláturhúsin, séu þeir að hafa sem fjölbreyttasta flóru vörutegunda og til þess þarf að virkja bændur sjálfa.

Hlutverk stjórnvalda í þeim efnum hlýtur að vera að greiða götu íslensks landbúnaðar til að bjóða upp á fjölbreyttara vöruúrval en standa jafnframt vörð um heilnæmi matar. Stjórnvöld eiga að vera með bændum í liði þótt þau þurfi einnig að passa upp á að ekkert misjafnt fari fram og auðvitað að öryggi almennings sé tryggt. Þessi reglugerðarbreyting var mikilvægt skref í þá átt.

En reglugerðir mega aldrei verða markmið í sjálfu sér heldur alltaf tæki til að ná æðri markmiðum. Um það erum við hæstv. ráðherra vafalítið sammála. Með þessari reglugerðarbreytingu árið 2016, um lítil matvælafyrirtæki, var eftirlit með fyrirtækjum sem féllu undir skilgreiningar þeirrar reglugerðar einfaldað. Þessi breyting tók gildi um miðja sláturtíð 2016 svo það má í sjálfu sér segja að ekki sé enn komin mikil reynsla á framkvæmdina.

En mér þykir áhugavert að heyra frá ráðherranum hvernig reynslan hefur verið hingað til og hvort hann telji ástæðu til að einfalda frekar regluverkið tengt þessum litlu sláturhúsum. Spurningarnar hefur ráðherrann þegar fengið.