149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lítil sláturhús.

192. mál
[17:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð að viðurkenna að það furðar mig mjög að fleiri aðilar hafi ekki sótt um þetta leyfi eftir þessa nýju reglugerð, því að þetta er eitt af því sem við höfum haldið mjög á lofti í umræðunni um landbúnað; aukið frelsi til handa bændum, aukna nýsköpun, sérstaklega í ljósi ferðamannastraumsins, og það að fólk geti selt beint frá býli. Maður hefði haldið að það væru einhverjar hindranir í veginum sem þessi reglugerð átti með einhverjum hætti að leysa. Þess vegna verð ég að viðurkenna að ég er eiginlega hissa á því að fleiri hafi ekki, hvað eigum við að segja, hoppað á vagninn.

Ég tek heils hugar undir með þeim sem hér hafa talað. Ég held það sé mjög mikilvægt að bændur hafi frelsi til að slátra heima og þróa sínar afurðir í átt að því sem markaðurinn er að kalla eftir, sem ég held að verði alltaf fjölbreyttari og fjölbreyttari með auknum ferðamannastraumi.

Við vorum mörg hér, virðulegi forseti, í Færeyjum og heimsóttum þar m.a. áhugavert bú sem er úti á lítilli eyju. Þar eru þau með sláturhús sem (Forseti hringir.) uppfyllir að mér skilst allar reglugerðir varðandi EES og annað og eru þarna að slátra í gríð og erg. Ég (Forseti hringir.) velti því fyrir mér hvort það séu ekki fleiri tækifæri fyrir íslenska bændur líka.