149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lítil sláturhús.

192. mál
[17:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem hafa tekið til máls. Ég tek undir það sem hér var sagt rétt áðan, ég furða mig líka svolítið á því að ekki skuli fleiri vera búnir að sækja um þótt tíminn sé svo sem ekki langur, en þó frá 2016. Svo er búið að ýta kannski svolítið undir þetta. Það er mikilvægt eins og ráðherra kom inn á að kynna þetta betur.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að auka sveigjanleika, það er auðvitað, eins og hæstv, ráðherra kom inn á, það sem Þjóðverjar hafa gert, við hljótum að geta gert slíkt hið sama. Við erum að tala hér um afskaplega hreina afurð, það sem kemur frá íslenskum landbúnaði. Það er auðvitað galli við okkar kerfi hvernig virðiskeðjan er, þ.e. slátrunin, vinnslan og salan. Hún getur verið hjá bónda, ég kaupi t.d. mitt kjöt af slíkum bónda, en hann fær ekki að aflífa. Það er eitt af því sem við þurfum að reyna að fá fleiri til að gera, það skiptir mjög miklu máli.

Eins og ég kom inn á áðan með nýsköpunina sem þarf að eiga sér stað í landbúnaðinum samhliða öðrum aðgerðum sem bæði stjórnvöld og bændur þurfa að beita sér fyrir, þarf að vinna með á fjölbreyttan hátt. Það er auðvitað ekki í lagi, eins og hér var nefnt áðan, að það sé ákveðin fyrirstaða að fara með skrokkana í sláturhús, að það sé svo dýrt að fara með þá þangað og taka til baka aftur, að það sé fyrirstaða.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra. Ég hvet hann líka til dáða til að ýta við þessu og kynna vel, því að það er augljóslega eitthvað sem þarf að gera. Þetta opinbera eftirlit sem á að tryggja gæðin, tryggja matvælaöryggi til handa okkur neytendum, það er eitthvað sem við getum vel fylgt, hvort sem það er Matís eða einhverjir aðrir sem eiga að sinna því eftirliti.