149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lífrænn landbúnaður og ylrækt.

269. mál
[17:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Í umræðunni kemur í ljós að íslenskur landbúnaður er á tímamótum að mörgu leyti. Nýsköpun, sjálfbærni, aukin gæði, nálægð við neytendur, lyfjaleysi o.fl. — þetta eru orð sem eiga að stýra okkur áfram. Síðastliðin átta ár hafa verið flutt inn 107 tonn af plöntuverndarvörum. Í aðgerðaáætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um notkun varnarefna er markmiðið að ýta undir samhæfðar varnir og nýta ekki kemísk efni. 72 tonn voru undir svokölluðum áhættuvísi en rúm 35 tonn voru yfir. Í tonnafjöldanum 107 voru svokölluð virk efni sem margir vilja kalla plöntueitur, sem er auðvitað rangnefni í sumum tilvikum, töldust þau vera 19 tonn, og þar af 2,2 tonn yfir áhættu. Notkun kemískra efna í landbúnaði jafnt sem almennri garðyrkju er umdeild vegna neikvæðra áhrifa á lífríkið. Það er auðvitað rétt að hvetja til þess að innflutningurinn minnki stöðugt og hætti að mestu að lokum. Það er rétt að ná þeim markmiðum aðgerðaáætlunarinnar um að plöntuvernd án skaðlegra efna verði ríkjandi á Íslandi.

Herra forseti. Staða þessara mála og matvælaöflunar yfirleitt er hvatning til aukinnar lífrænnar ræktunar. Nú eru aðeins 20 virk slík býli í landinu hjá okkur og það er ótrúlega lág tala. Lífræn ræktun bætir gæði matvæla, eykur kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri, lækkar vistspor landbúnaðarins, eykur viðnámsþrótt jarðvegs og lands og landgæða, þannig að hvernig sem á það er litið eru kostirnir ótvíræðir.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvað gera megi til að auka lífrænan landbúnað og spyr: Vantar ekki hvata til þess?

Staðan í landbúnaði beinir líka sjónum að ylræktinni. Þar vantar nýliðun. Það þarf að lækka raforkuverð, auka nýsköpun, miklu styrkari menntun í greininni og það vantar nýmæli á borð við það að hitaveitulagnir eru notaðar í jarðveginum úti við með volgu vatni til að auka afköst útiræktunar. Þetta er virkilega sannkölluð græn ræktun og ætti auðvitað að vera gerð í miklu meiri mæli á Íslandi en nú er.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra aftur: Hvaða leiðir sér hann til þess að efla ylrækt í landinu?