149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lífrænn landbúnaður og ylrækt.

269. mál
[17:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Í nýlegu viðtali í Bændablaðinu segir formaður Sambands garðyrkjubænda að ef orkupakki nr. 3 verði samþykktur leggist garðyrkja af á Íslandi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist styðja það að þriðji orkupakkinn verði samþykktur hér á þinginu og leggja þar með niður þessa atvinnugrein.

Mig langar líka að vekja athygli á því að í þessum ágæta starfshóp sem hann minntist á áðan vantaði eitt orð, það er markaðsmál. Þau eru stórmál og eitt af því sem er í miklum lamasessi varðandi þessa grein í dag.

Hæstv. ráðherra sagði að í stjórnarsáttmála væru fyrirheit um að lækka raforkuverð til ylræktarbænda, sem ég vona sannarlega að verði staðið við og sé einhvers virði. Ég hitti mjög stóran ræktanda um daginn sem sagði mér að verðið á kílóvattsstund sem hann borgar, og þær eru nokkrar tugi milljóna á ári, sé u.þ.b. 25% hærra til hans hér á Íslandi en til garðyrkjubónda í Hollandi.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé brýnt að bæta hér úr til að jafna þessa stöðu. Það að (Forseti hringir.) flytja grænmeti inn frá meginlandi Evrópu eða lengra að gerir náttúrlega stórt kolefnisspor sem við getum (Forseti hringir.) komið í veg fyrir með því að auka ylrækt á Íslandi.