149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lífrænn landbúnaður og ylrækt.

269. mál
[17:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil aftur þakka hv. þingmanni fyrir að leggja þessa mikilvægu fyrirspurn fram og hæstv. ráðherra fyrir svarið við henni. Ég verð líka að furða mig á því að ekki hafi fleiri aðilar sótt um styrki til að aðlagast lífrænni ræktun, en þó er gott að heyra hjá hæstv. ráðherra að aukin ásókn virðist vera í það. Ég held að það sé mjög mikilvægt, enda stendur það skýrt í stjórnarsáttmálanum, að efla lífrænan landbúnað.

Mig langar líka að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa vinnu varðandi matvælastefnuna. Ég er mjög spennt fyrir að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu. Ég held að það sé okkur mjög mikilvægt að standa vörð um heilnæmar landbúnaðarafurðir og mikilvægi fæðuöryggis Íslendinga. En það væri líka ágætt ef hæstv. ráðherra kæmi aðeins inn á málefni ylræktarinnar. Það virðist vera mikil hræðsla í þeim geira varðandi þriðja orkupakkann, sem við erum öll meðvituð um hér á þingi að verið er að vinna að, en við erum að (Forseti hringir.) skoða alla þætti þess máls. Ég tel mikilvægt að róa aðeins þá atvinnugrein og fullvissa menn um að verið sé að skoða alla þessa þætti.