149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða klasa og nauðsyn þess að móta opinbera klasastefnu. Ég vil byrja á því að þakka forstöðumanni Nýsköpunarmiðstöðvar, Karli Friðrikssyni, fyrir frumkvæðið að því að gefa okkur þingmönnum tækifæri til að hitta einn af fremstu sérfræðingum í heiminum á sviði klasa. Ifor Ffowcs-Williams heitir hann og er staddur hér á landi á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar með vinnustofu fyrir klasastjóra. Hann gaf sér tíma fyrir okkur þingmenn til að upplýsa okkur frekar um klasasamstarf og mótun klasastefnu. Ég var ánægður með að sjá þann áhuga sem þingmenn sýndu þessum fundi og sérstaklega formaður og nefndarmenn hv. atvinnuveganefndar. Ég tel afar brýnt að við fylgjum eftir frumkvæði atvinnulífsins að stofnun og mótun klasa og felum hv. ríkisstjórn að móta opinbera klasastefnu.

Ég hef ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins ítrekað lagt fram þingsályktunartillögu þessa efnis og málið er nú til umfjöllunar í hv. atvinnuveganefnd. Ég vona að eftir þennan fund fái það mál framgang. Við þurfum að líta til annarra þjóða á þessu sviði sem hafa mótað opinbera stefnu og eru að ná langt; það kom einmitt fram á þessum fundi að það væri mikilvægt eins og dæmin sanna, í Kanada, Noregi, Danmörku og víðar. Þetta snýst ekki einvörðungu um fjármögnun, fremur um að magna nýsköpunarstarf hinna sjálfsprottnu klasa og samvinnu við mennta- og rannsóknarstofnanir á tilteknum svæðum eða á landsvísu sem og alþjóðlega, þar sem slík nýting auðlinda og verðmætasköpunar á við.

Í Danmörku eru 45 klasar ásamt fleiri staðbundnum klösum. Danir hafa mælt að fyrirtæki sem taka þátt í klasasamstarfi eru fjórum sinnum líklegri til að koma af stað nýskapandi verkefnum en þau fyrirtæki sem ekki eru hluti af slíkri samvinnu. Þetta er í raun kjarninn í mótun opinberrar klasastefnu.