149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Síðastliðinn föstudag sótti ég fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem Guðmundur Hafsteinsson, stjórnandi hjá Google og nýskipaður formaður stýrihóps um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, hélt erindi. Áhersla Guðmundar Hafsteinssonar í erindi sínu var á að Íslendingar væru þátttakendur í þeirri hröðu tækniþróun sem nú á sér stað og að stefna íslensks samfélags væri með þeim hætti að það geti vel hentað fyrir tilraunir sem tengdust t.d. sjálfkeyrandi bílum.

Fyrir nokkrum vikum fór ég með vísinda- og tækninefnd NATO-þingsins í mjög svo áhugaverða ferð til San Diego og Kísildalsins. Áherslupunktar nefndarinnar voru netöryggismál og gervigreind og sérstök áhersla var lögð á lærdómsvélarnar, „machine learning“. Dagskráin var þétt og mörg af stærstu hátæknifyrirtækjum jarðar voru heimsótt í þeirri ferð, svo sem General Atomics Aeronautical Systems, Facebook, Google, rannsóknarsetur NASA í Ames, ásamt mörgum öðrum leiðandi fyrirtækjum á sínum sviðum.

Áherslan í ferðinni var á netöryggismál, sem eru að verða eitt af stærstu málum samtímans úti um allan heim. Ég tel gríðarlega mikilvægt fyrir okkur á Íslandi að taka þátt í þeirri þróun. Það sem stóð helst upp úr í ferðinni var gervigreindin og það hvert hún er komin og hversu gríðarlega mikil áhrif hún hefur á daglegt líf íbúa. Lærdómsvélarnar og það sem þeim tengist vekja mann til umhugsunar um þær gríðarlegu breytingar sem eru að verða á lífsháttum jarðarbúa.

Það sem maður hugsaði var að við ættum að taka þátt í byltingunni, ekki vera hrædd við hana en á sama tíma fara varlega í hlutina. Það er svo margt annað sem við gætum tekið þátt í á þeim sviðum sem ég talaði um í sambandi við hátæknina, eins og ómannaðar flugvélar og þróun og innleiðingu á nýrri heilbrigðistækni. Við skulum nýta tækifærin sem eru fyrir hendi og vera leiðandi, en ekki bregðast við eftir einhver ár.