149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég las áðan frétt í Kjarnanum sem staðfestir það sem mörg okkar vissu eða grunaði, að erlendum ríkisborgurum sem búa hérlendis hefur fjölgað mikið. Þeir voru í lok september 2018 43.430. Það er gríðarleg fjölgun. Um 2011 var talan 21.000 þannig að þetta er 108% aukning á sjö árum og sérstaklega mikið á síðustu árum, eða 43% fjölgun frá árslokum 2016.

Þetta er mjög vel. Við eigum að vera stolt yfir því að við búum í þannig samfélagi að fólk vilji sækja okkur heim, hvort sem það ætlar sér að setjast að til langframa eða kemur hingað tímabundið til vinnu. Það þarf hins vegar að huga vel að réttindum og aðbúnaði þeirra sem hingað koma og kunna kannski ekki alveg nógu vel á samfélagið og þær reglur sem við förum eftir. Það þarf ekki síður að þekkja þau réttindi sem við öll hér á landi eigum skilið. Auka þarf stuðning við þennan risastóra hóp sem fer ört stækkandi.

Þess vegna langar mig enn og aftur að vekja athygli á þingsályktunartillögu sem ég er 1. flm. að um ráðgjafarstofu innflytjenda þar sem sérstaklega er kveðið á um átak í þeim málum, að auka við stuðning við fólk sem ekki fæðist hér á landi en flytur til hingað. Það þarf að auka þann stuðning. Sérstaklega þarf að horfa á höfuðborgarsvæðið af því að þar er mannfjöldinn svo mikill en það þarf ekki síður að horfa til Reykjanesbæjar þar sem fjölgunin hefur verið mest. Rúm 24% íbúa Reykjanesbæjar eru af erlendum uppruna. Svo þarf að huga að Vestfjörðum þar sem hið góða starf Fjölmenningarseturs hefur farið fram síðustu árin og þarf að styðja vel við það áfram.

Virðulegur forseti. Þótt löngu tímabært sé að gera það sýnir fjöldinn okkur að við þurfum að huga betur að því og fara í almennilegt átak í því og til þess er umrætt frumvarp góð leið.