149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nýjar fréttir berast frá ESB sem vill nú draga úr eftirliti á kjúklingakjöti, en víðast hvar í Evrópu er tíðni kamfýlóbakter í kjúklingi 100% og er það helsta orsök matareitrana í Evrópu. Við Íslendingar viljum forðast steinsmuguna og verja heilsu landsmanna. Við hleypum ekki salmónellukjúklingi á markað, honum er hent. Við gerum miklar kröfur til matvælaframleiðslu og erum í eftirsóttri stöðu hvað varðar öryggi matvæla.

Við höfum alla möguleika og burði til að standa öðrum þjóðum framar hvað varðar framleiðslu á heilnæmum matvælum, bæði sjávar- og landbúnaðarafurðum. Það er ekki sjálfgefið að matvæli eigi að flæða frjálst á milli landa eins og hverjar aðrar vörur. Ekki í þeim tilfellum þegar verja þarf lýðheilsu gegn matvælum sem haft geta skaðleg áhrif á heilsu manna. Ísland býr við þá sérstöðu umfram önnur lönd að auðveldara er að verjast sjúkdómum, forðast sýklalyfjaónæmi og draga úr útbreiðslu slíkra baktería vegna þess að við erum eyja með hreina búfjárstofna.

Íslenskir bændur hafa staðið vaktina, ræktað landið og unnið gæðaframleiðslu, gæðafæðu sem nýtur sannarlega nokkurrar sérstöðu þar sem t.d. má nefna að hér er lyfjanotkun hvað lægst í heiminum og bann er við notkun á erfðabreyttu fóðri. Markmið landbúnaðarkerfisins falla öll í þá átt að tryggja landsmönnum heilnæm matvæli í hæsta gæðaflokki sem uppfylla ýtrustu skilyrði um aðbúnað dýra.

Hæstv. forseti. Enn legg ég til að við hlustum á okkar reyndustu vísindamenn sem vara okkur við innflutningi á fersku kjöti. Dæmi: Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, segir áhrif af innflutningi á fersku kjöti muni verða þau t.d. að kamfýlóbaktersýkingum muni fjölga og bendir á að ómetanlegt sé að á Íslandi sé minnst sýklalyfjaónæmi í öllum löndum Evrópu, en það er ein helsta lýðheilsuógn heimsins í dag. Við stöndum vel og ég held að orð dr. Margrétar Guðnadóttur heitinnar eigi vel við hér: Það er ræfildómur að halda ekki landinu hreinu.