149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Sf):

Forseti. Nú er ég að stíga í þennan ræðustól í fyrsta sinn í ríflega fimm ár. Það er heiður og hann er ekki sjálfgefinn. Mér þykir nefnilega undurvænt um Alþingi og vil virðingu þess sem mesta. Mér finnst margir ekki átta sig á eðli þjóðþinga. Af hverju getur fólk ekki bara unnið saman, er spurt. Málefnaleg átök eru eðlileg í stjórnmálum. Þingmenn eiga að takast á með orðum og rökum. Ég reyni stundum að útskýra þetta í einhverri smámeðvirkni, en svo kemur að spillingunni og þá er mér fyrirmunað að verja Alþingi sem er mér þó svo kært.

Ég veit, af því að ég þekki marga hér, að flestir þingmenn eru ljómandi gott fólk. Ég er ekki endilega sammála þeim um alla hluti en ég veit að flestir hér vinna af heilindum fyrir þjóðina. Það dugar ekki til að hífa virðingu Alþingis upp. Fólk er upplýst, það hlustar á fréttir, les blöð og netmiðla. Það veit af í besta falli vafasömum viðskiptagjörningum fjármálaráðherra árin og ekki síst dagana fyrir hrun. Það veit af geðþóttaákvörðunum dómsmálaráðherra við skipun dómara í Landsrétt og þeim dómum sem hafa fallið vegna starfa hennar. Þetta eru tveir ráðherrar og þingmenn, kannski í lagi með flesta aðra, sennilega ekki vegna þess að þessir tveir ráðherrar sitja í skjóli meiri hluta þings. 33 þingmenn studdu þessa ríkisstjórn seinast þegar var talið og þar með þessa tvo ráðherra sem ég fullyrði að væru ekki í þessum stöðum í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við.

Meiri hluti þings heimilar þetta og er tilbúinn að loka augunum fyrir spillingunni vegna góðra mála sem þeir halda og trúa að séu þjóðinni fyrir bestu. Tilgangurinn helgar ekki meðalið. Ég veit að flestir hér inni eru betri en þetta.