149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Fram undan eru kjarasamningar þar sem hart kann að verða tekist á. Mikilvægt er að niðurstaða þeirra verði farsæl og leggi grunn að áframhaldandi efnahagslegum uppgangi í landinu. Kjarasamningarnir veita dýrmætt tækifæri til að gera átak til að rétta hlut þeirra sem lægst hafa launin. Þeir hafa mátt taka á sig aukna skattbyrði umfram aðra eins og rakið er í skýrslu Alþýðusambands Íslands um skattbyrði tekna 1998–2016.

Þingmenn Flokks fólksins hafa með stuðningi tveggja hv. þingmanna úr Miðflokknum lagt fram tillögu til þingsályktunar um skattleysi tekna undir 300.000 kr. með það fyrir augum að tekjur sem ekki duga til framfærslu séu ekki skattlagðar. Tillagan hefur auk þess að markmiði að auka jöfnuð í skattkerfinu og færa skatthlutföll tekjuhópa nær því sem gerist og gengur á Norðurlöndum. Kostnaður við tillöguna er ámóta en að sönnu nokkru meiri en kostnaðurinn við tillögur flokks fjármálaráðherra fyrir kosningarnar í fyrra um lækkun neðra þreps tekjuskatts um tæp 2%. Tillögurnar eru að öðru leyti gjörólíkar um markmið en sú síðarnefnda miðar ekkert sérstaklega að því að bæta hag lágtekjufólks, heldur virðist hún best gagnast hinum tekjuhærri.

Hér liggur á borðinu, herra forseti, raunhæf tillaga um skattleysi tekna undir 300.000 kr. sem sýnist mæta kröfum um kjarabætur handa hinum lægst launuðu. Ásamt markverðu átaki í húsnæðismálum væru komnir þýðingarmiklir þættir í uppskrift að þeirri farsælu lausn sem ég gat um í upphafi máls míns og kalla verður þjóðarnauðsyn.