149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Í gær bárust þau stórtíðindi að Icelandair hefði keypt allt hlutafé í Wow, sínum helsta keppinauti hér á landi. Það er auðvitað fagnaðarefni að vonandi hafi með þessum aðgerðum tekist að koma rekstri Wow í örugga höfn. Það hefur ekki verið launungarmál í umræðunni að þar hefur gengið á ýmsu og staðið tæpt á köflum. Ekki skal dregið úr efnahagslegu mikilvægi flugfélagsins eða hvaða áhrif það hefði á ferðaþjónustu hér á landi ef flugfélag af þessari stærðargráðu hefði fallið.

Það breytir þó ekki því að auðvitað hefur þetta veruleg og mögulega neikvæð áhrif á samkeppnismarkaði. Í þessu samhengi verður að huga mjög vandlega að því, og samkeppnisyfirvöldum er vissulega ákveðinn vandi á höndum, hvort horft skuli til þeirrar staðreyndar að sameinað flugfélag hafi tæplega 4% markaðshlutdeild á flugleiðinni yfir Atlantshafið eða hvort horft skuli til þess að sameinað flugfélag hafi tæplega 80% af markaðshlutdeild til og frá landinu. Það munar talsvert miklu fyrir okkur sem neytendur í þessu landi hvort hér verði virk samkeppni á flugmarkaði áfram eða ekki.

Því miður hefur borið svo við að þegar á reynir hefur áhugi á frjálsri og virkri samkeppni í stjórnmálum á Íslandi oft verið mjög takmarkaður, eins og umræðan t.d. um landbúnaðarmál hefur oft borið með sér. Það er mjög mikilvægt þegar kemur að þessu mikla, viðkvæma úrlausnarefni fyrir samkeppnisyfirvöld að við veitum þeim ráð og tíma til þess að vinna úr þessari flóknu stöðu og tryggja hagsmuni neytenda í málinu, að hér verði áfram virk samkeppni fyrir okkur íbúa þessa lands á flugmarkaði þrátt fyrir þennan samruna. Hér verði ekki hvatt til þess að vikið verði frá löggjöfinni um samkeppnismál þegar þessi samruni verður tekinn til umræðu hjá samkeppnisyfirvöldum heldur þvert á móti, að um hann verði búið þannig að hagsmunir neytenda hér á landi verði ekki fyrir borð bornir.