149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

staða þjóðkirkjunnar og tengsl hennar við ríkisvaldið umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög.

280. mál
[14:06]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tel rétt að rifja upp markmið með þessari skýrslubeiðni sem er að draga saman á einn stað upplýsingar sem eru forsenda þess að unnt sé að vanda til undirbúnings að afnámi sérstöðu þjóðkirkjunnar í samanburði við önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Markmið beiðenda er ekki að vinna að því að þjóðkirkjan verði lögð niður eða grafa undan sögulegri eða menningarlegri stöðu hennar. Það hryggði mig að heyra ræðu hæstv. fjármálaráðherra á kirkjuþingi. Ég vitna til hans, með leyfi forseta:

„En jafnvel á Alþingi er töluverður hópur þingmanna sem virðist ekki tilbúinn til að viðurkenna að neinu leyti að þjóðkirkjan hafi hlutverk eða eigi erindi við samtímann, ekki heldur að virða þá samninga sem gerðir hafa verið. Þetta gerir það enn brýnna en ella að ríkið og kirkjan nái saman sem fyrst um að þróa áfram samband sitt og sjálfstæði kirkjunnar innan skynsamlegs ramma.“ (Forseti hringir.)

Sem sagt ríkið, framkvæmdarvaldið, og kirkjan eiga að drífa í því að ná samkomulagi áður en Alþingi kemst með puttana í málið. Þetta er ekki þessum ágæta vettvangi, kirkjuþingi, eða þjóðkirkjunni eða hæstv. fjármálaráðherra, til sóma.