149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

staða þjóðkirkjunnar og tengsl hennar við ríkisvaldið umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög.

280. mál
[14:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er vinsælt að setja upp aðskilnað ríkis og kirkju þannig að það sé einhver sem sé á móti kirkjunni og kristinni trú og aðrir sem standi upp og verji hana fyrir árásum fólks sem er á móti henni. Það er bara ekki tilfellið. Aðskilnaður ríkis og kirkju snýst um jafnræði borgaranna gagnvart lögum, óháð trúar- og lífsskoðun. Um það snýst það.

Ég er í lífsskoðunarfélagi sem heitir Siðmennt, það er ekki erfitt að fletta því upp að ég var í stjórn þess ágæta félags. Ég myndi berjast mjög hatrammlega gegn þeirri hugmynd að Siðmennt yrði einhvers konar þjóðarlífsskoðun hér, vegna þess að ég trúi því ekki að ríki séu trúuð, hverju svo sem ég kann að trúa á andlega sviðinu. Þessi skýrslubeiðni er það sem nafnið segir, beiðni um skýrslu, söfnun upplýsinga, vissulega að því markmiði að meta þetta verkefni. Verkefnið er ekkert í andstöðu við kristni, ekki einu sinni andstöðu við þjóðkirkjuna sjálfa sem stofnun eða sem trúfélag, heldur þetta samband ríkis og kirkju. (Forseti hringir.) Það er hlutverk ríkisins sem við eigum að huga að hér, ekki trúarsannfæringu okkar.