149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

staða þjóðkirkjunnar og tengsl hennar við ríkisvaldið umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög.

280. mál
[14:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að við hljótum að geta verið jákvæð gagnvart því að afla upplýsinga. Þau atriði sem hér er spurt um eru að stórum hluta tilefni sem getur fallið undir skýrslubeiðni. Þess vegna hefði kannski verið einfaldara fyrir hv. flutningsmann að koma með fyrirspurn til skriflegs svars. Það er hins vegar nauðsynlegt að hafa í huga að skýrslubeiðni er fyrst og fremst til þess hugsuð að afla upplýsinga. Ef menn eru að leggja til vinnu með tiltekin markmið, af því að þeir ætla sér að koma á einhverjum lagabreytingum t.d., er kannski eðlilegra að koma með málið í formi þingsályktunartillögu sem fær þá efnislega umfjöllun í þinginu. Skýrslubeiðni fær það sem slík ekki.

Þess vegna hefði verið betra, held ég, fyrst það er markmið tillöguflytjenda, að vanda til undirbúnings að afnámi sérstöðu þjóðkirkjunnar — það segir í textanum, það er markmiðið í þessu, að koma með þingsályktunartillögu. Svo verð ég að segja að mér finnst mjög sérkennilegt að þingið sé að biðja ráðherra um (Forseti hringir.) skýrslu sem felur m.a. í sér, eins og greinir í 6. lið, hvaða aðila ráðherra þætti mikilvægt að fá til samráðs verði tekin ákvörðun um að afnema sérstöðu þjóðkirkjunnar.

Eins og ég segi: Ég styð það að þeirra upplýsinga verði aflað sem hér er talað um, um stöðu þjóðkirkjunnar, samninga við ríkið, fjárframlög og annað þess háttar, en ég verð að segja að mér finnst tillöguflytjandi hafa valið vitlausa leið til þess að koma þessu máli á dagskrá (Forseti hringir.) og mun þess vegna ekki styðja tillöguna hér á eftir.