149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

ársreikningar.

139. mál
[14:27]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir framsögu hennar í málinu. Eins og fram kom í máli hennar skrifa ég undir nefndarálitið. Mig langar að eiga örstutt samtal við þingmanninn um þá þætti sem komu fram í umsögninni með mörgu aðilanum, þ.e. hinum stóru fyrirtækjum á Íslandi auk Viðskiptaráðs, þar sem þeir fara yfir það að kannski sé óþarflega íþyngjandi að vera með íslensku í ársreikningum á Íslandi fyrir þau fyrirtæki og það dygði að vera með útdrátt.

Ég er þar að ég held að jafnmikilvægt sé fyrir íslensk fyrirtæki að geta kallað til íslenska stjórnarmenn eða stjórnarmenn sem hafa alist upp í því umhverfi sem fyrirtækin starfa í í einhverjum tilfellum, eins og það að geta kallað til ytri augu, af því að ég held að hvort tveggja sé mikilvægt. Þess vegna vil ég ræða við þingmanninn hvort hún sé sammála mér í því sjónarmiði samhliða því sem hún nefndi með íslenskan almenning sem fær væntanlega á einhverjum tímapunkti tækifæri til að eignast hlut í þessum fyrirtækjum eða hefur áhuga á að fylgjast með starfsemi þeirra, að hann geti á öruggan hátt á því máli sem hann skilur kynnt sér starfsemi fyrirtækjanna.