149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

ársreikningar.

139. mál
[14:36]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni nefndarinnar fyrir ágæta yfirferð yfir nefndarálitið og breytingartillöguna. Ég er samt ekki alveg sannfærður um að nefndin hafi endilega komist að bestu mögulegu niðurstöðu í málinu og leyfi mér að tiltaka nokkur atriði úr umsögn hópsins sem sendi inn í umsögn sameiginlega, sem eru nokkur af helstu og stærstu fyrirtækjum landsins og Kauphöllin og Viðskiptaráð.

Í fyrsta lagi þetta með að það efli trúverðugleika að ársreikningar séu samhliða á íslensku. Ég átta mig ekki alveg á því. Í umsögninni kemur fram að í löndum eins og Noregi, Danmörku og Hollandi séu ekki gerðar kröfur um að ársreikningar séu birtir á móðurmáli, heldur sé hægt að birta þá á erlendu tungumáli, a.m.k. á ensku. Maður hlýtur þá að spyrja sig hvort viðskiptalíf í þeim þremur löndum sé ekki trúverðugt. Ég sé ég ekki alveg þetta samhengi og langar aðeins að heyra um það.

Síðan er það spurningin um eftirspurnina eftir ársreikningum á íslensku hjá fyrirtækjum af þessu tagi. Það kemur skýrt fram í umsögninni sem ég vitna til að eftirspurnin er engin. Þá getur maður spurt: Hvaða trúverðugleika er verið að uppfylla ef enginn óskar eftir reikningnum á íslensku? (Forseti hringir.)

Rétt að geta þess að ársreikningar eru ekki bara nokkrar tölur á blaði. (Forseti hringir.) Síðasti ársreikningur Marel er t.d. upp á 65 síður, mikið talnaefni og mikill texti. (Forseti hringir.) Eins og réttilega er á bent á er villuhætta og (Forseti hringir.) ef villur koma í ljós gildir (Forseti hringir.) enski textinn. Ég skil þetta því ekki alveg með trúverðugleikann.