149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

ársreikningar.

139. mál
[14:41]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég er ekki endilega viss um að kostnaðurinn sé út af fyrir sig kjarninn í málflutningi mínum. Ég efast ekki um að vel stæð fyrirtæki sjá ekki endilega eftir þessum peningum í þetta. En við erum líka með smærri fyrirtæki sem hið sama gildir um. Eins og bent er á í umsögninni gerir margt smátt eitt stórt og ýmsir hafa það á orði að frekar eigi að reyna að draga úr skriffinnsku og kröfum til reksturs til að bæta samkeppnishæfnina. Þetta er eitt af þessum mörgu atriðum sem þarna koma til skoðunar.

Ég efast ekki um að það sé rétt sem segir í umsögninni frá þessum aðilum að eftirspurn eftir textanum á íslensku er engin. Þá er spurningin: Af hverju á að skylda fólk til að fullnægja eftirspurn sem engin er? Það er kjarninn í því sem ég er að segja, að mér sýnist að þetta mál sé ekki þarft, þ.e. þessi partur af því. Hitt er auðvitað nauðsynlegt og gott að það sé alveg skýrt að menn geti haft sína reikninga á ensku máli.