149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

ársreikningar.

139. mál
[14:44]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er svo sem búið að nefna að upp kom umræða í nefndinni í kjölfar umsagnar Viðskiptaráðs og nokkurra fyrirtækja sem skila ársskýrslum sínum á ensku og íslensku í dag, um hvort ekki væri eðlilegt að fella brott kröfu um að íslensk þýðing fylgdi.

Ég er á því nefndaráliti án nokkurs fyrirvara vegna þess að ég held að niðurstaða nefndarinnar sé í grundvallaratriðum rétt. En mér finnst engu að síður ástæða til þess að bera þetta upp vegna þess að það er alveg til í dæminu að hægt hefði verið að komast að réttari niðurstöðu. Það eru nokkrir hlutir sem togast á. Þarna er annars vegar um að ræða hugmyndir um að verja íslenskuna og tryggja sess hennar. Það eru hugmyndir um hvort fólk sem vill kynna sér ársskýrslur kunni ensku að nægjanlegu marki til að geta skilið þær. Og hins vegar eru spurningar um þann kostnað sem fellur til.

En ég verð að segja að ég hef afskaplega takmarkaða samúð með kostnaðarsjónarmiðinu. Þetta er, eins og fram kom í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, takmarkaður kostnaður fyrir fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem um ræðir og fæst fyrst og fremst með skapalónum sem verða til á fyrsta ári, sem þýðir vissulega að fyrsta árið verður dýrara. En þegar við erum komin í þessa stærðargráðu er það kannski ekki höfuðatriðið.

Á móti held ég að þetta sé ekki endilega rétti staðurinn til þess að verja íslenskt mál. Það er nefnilega þannig að aldrei hafa fleiri talað íslensku en í dag. Aldrei hafa fleiri verið að læra íslensku en í dag. Það hafa aldrei verið til jafnmargar tæknilausnir til að styðja við íslensku sem tungumál. Ég er ekki sannfærður um að þetta sé rétti staðurinn til að vera að verja tungumálið okkar.

Hvað varðar fólk sem ætlar að kynna sér þessar ársskýrslur grunar mig að allir þeir sem hafa fjármálalæsi til að komast í gegnum þykkar ársskýrslur af einhverjum skilningi hafi jafnframt töluverðan skilning á ensku máli, enda væru þeir varla í alþjóðlegum viðskiptum í nútímanum án þess.

Þarna þykir mér vera ákveðið jafnvægi milli sjónarmiða.

En þá kemur það sem mér finnst vera mikilvægasti punkturinn sem skekkir dæmið svolítið mikið. Það er ekki beint kostnaður fyrirtækja heldur flækja. Við höfum séð bara núna á síðustu dögum hversu alvarlegt það er að íslenskt hagkerfi er fábreytt með takmarkaða stærð og takmarkaðan fjölbreytileika. Það eru ótal dæmi um það.

Ég hef talað við fólk hjá erlendum fyrirtækjum sem gæti hugsað sér að flytja starfsstöð til Íslands, að vera með starfsemi hér, og um leið að auka flóruna okkar, gera hagkerfi okkar burðugra og þolnara gagnvart höggum. Það eru ótal dæmi um þetta. Það er mikill áhugi á Íslandi af ýmsum ástæðum. Stundum er það vegna náttúruauðlinda. Stundum er það vegna tengsla okkar og staðsetningar við bæði Evrópu og Norður-Ameríku. Það eru alls konar ástæður fyrir því. En þegar fyrirtæki kynna sér möguleikana á því að starfa hérna mætir þeim gríðarleg flækja. Og flækjan skilar sér í miklum kostnaði. Ég hef gagnrýnt þann kostnað áður. Það eru ótal gjöld sem eru íþyngjandi. Það eru ótal aðrir hjallar sem þarf að komast yfir; lögfræðilega álagið við að koma af stað rekstri, hvað þá að hafa rekstur í góðum farvegi, er töluvert. Ég vil meina, án þess í rauninni hafa farið í neinar ítarlegar rannsóknir á þessu, að hann sé töluvert meiri en í sambærilegum löndum, eða öllu heldur löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Þá er spurningin hvort við getum ekki notað tækifærið sem gefst til að losa um þetta flækjustig. Kannski er það að hætta að gera kröfu um íslenska þýðingu á ársreikningum ekki endilega risastórt stökk í þá átt. En það er engu að síður eitt af þeim skrefum sem við gætum tekið sem önnur lönd hafa tekið, eins og Holland, eins og Danmörk, eins og fjöldi Evrópulanda hefur tekið, hreinlega til að gera það meira aðlaðandi að stækka hagkerfið okkar.

Það þykir mér alla vega vera nægilega stór spurning og nægilega mikilvæg spurning. Þó svo að við förum kannski ekki út í það í þessu tiltekna frumvarpi ættum við að fara í það sem allra fyrst að greina hverjir hjallarnir eru fyrir fyrirtæki, bæði innlend og erlend, sem vilja hefja rekstur hér, sem vilja fara út í það að stækka hagkerfi okkar og gera góða hluti hér. Það ættum við að gera með það fyrir augum að fjarlægja eins mikið af flækjunni, sem er óþörf, og hægt er. Ég legg til að spurningin um þýðingar á ársreikningum verði einn af þeim þáttum þó að svo að það sé líklega lítilvægur þáttur í stóra samhenginu.

Varðandi tillögu að lausn þá er tilfellið að meiri hluti allra ársreikninga er byggður á frekar stöðluðum formum. Það er náttúrlega mismunandi milli fyrirtækja en það vill þannig til að bókhald var þróað fyrir mjög löngu síðan, fleiri hundruðum ef ekki þúsundum ára, og hefur í sjálfu sér lítið breyst. Að setja tölur ársreikninga fram með skýrum hætti er nokkuð sem við getum alveg tæknivætt. Við getum alveg skilgreint tiltekna reiti í tilteknu vélamáli sem tölvur skilja og haft síðan staðlaðar þýðingar á því hvað ákveðin orð þýða. Það er nokkuð sem við gerum mjög reglulega í tölvum alls staðar í heiminum í dag. Það er ástæðan fyrir því að hægt er að taka símann sinn og vera með hann á ensku eina stundina og á íslensku hálfri sekúndu síðar. Það er hreinlega hægt að stilla það.

Ef við getum notað sömu nálgun til að uppræta þetta flækjustig gagnvart ársreikningum með sjálfvirkum hætti er eiginlega aðalflækjan sem eftir situr fólgin í neðanmálsgreinum og skýringum sem fylgja stundum. Þær eru, að ég held, nægilega flóknar hvort eð er og mættu örugglega vera á ensku þar sem fólk sem ekki hefur fjármálalæsi til að átta sig á þeim á íslensku mun heldur ekki vera í vandræðum annars staðar [svo].

Það er ýmislegt jákvætt í farvatninu gagnvart fyrirtækjum á Íslandi. Þetta er auðvitað minni háttar atriði gagnvart þeim flestum. Samúð mín með þessum litla kostnaði er ekki mikil en ég hef töluverða samúð með fyrirtækjum sem þurfa að ganga í gegnum það flækjustig sem er til staðar í íslensku hagkerfi. Það er vandamál sem við þurfum að laga og ég legg til að við lögum það sem allra fyrst.