149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

ársreikningar.

139. mál
[14:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, enda kannski ekki um neitt risamál að ræða. Það er gott við þetta frumvarp að það er þó verið að reyna að skerpa á túlkun þannig að það verði skýrara hvenær fyrirtækin megi færa ársreikning á ensku og hvenær ekki. Það virðist hins vegar eins og við séum enn að eltast við of mikla þrengingu sem gerð var með lagabreytingu 2016.

Í grunninn sé ég ekki hvaða vandamál er hér á ferð. Við erum með þó nokkur alþjóðleg fyrirtæki sem starfa hér. Við ættum að vilja gera umhverfi þeirra sem hagkvæmast, að starfrækja alþjóðlega starfsemi hér á landi og við hljótum að geta treyst fyrirtækjunum til þess að meta á hvaða tungumáli þau reka meginstarfsemi sína og þá hvort þau geri ársreikninga sína á ensku eða íslensku. Þetta virtist vera vandkvæðalítið eða laust áður en þessar heimildir voru þrengdar með lögum 2016. Fyrirtækin gerðu þá eingöngu upp á ensku og skiluðu eingöngu ársreikningi á ensku og virtist ekki mikið yfir því kvartað. Ég sé því ekki sérstaka þörf á því að gera fyrirtækjum þá kvöð að færi þau ársreikninga á ensku skuli þau jafnframt þýða þá yfir á íslensku.

Ég sé ekki að línan um vörn okkar ástkæra tungumáls sé dreginn akkúrat þarna, við það á hvaða tungumáli ársreikningum sé skilað inn til ársreikningaskrár. Við hljótum fyrst og fremst að miða að því að starfsumhverfi alþjóðafyrirtækja hér á landi sé ekki flækt að óþörfu.