149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

162. mál
[15:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það kemur verulega á óvart að hagsmunaaðilar í áhugamannafélagi eins og Fornbílaklúbbi Íslands skuli ekki hafa sent inn athugasemdir vegna þess að ég hef rætt við þó nokkra meðlimi og þeir lýsa allir mikilli óánægju með þetta. Ég velti því hreinlega fyrir mér hvort þetta hafi farið fram hjá þessum félagsskap.

Ég held að það séu bilinu 700–1.000 aðilar í þessum félagsskap. Margar af þessum bifreiðum, ef þetta verður raunin og stefnt er að með þessu frumvarpi, munu bera nokkuð hátt bifreiðagjald. Þá spyr maður: Er rétt að skattleggja áhugamál með þessum hætti? Vegna þess að margar af þessum bifreiðum, fornbifreiðum, eru notaðar mjög skamman tíma á ári, jafnvel tvo, þrjá mánuði bara yfir sumartímann og greiða þá hátt bifreiðagjald sem gæti numið mjög líklega vel yfir 100.000 kr. á ári. Sá möguleiki er fyrir hendi að afskrá bifreiðina t.d. að sumartíma loknum og greiða ekki gjaldið, en það felur í sér óhagræði, bæði fyrir Samgöngustofu og þá sem eiga í hlut. Það kostar auk þess að afskrá bifreið eða leggja númerin inn, eins og kallað er, og taka þau svo út aftur.

Ég vil því hvetja nefndina til þess að skoða þetta nánar, vegna þess að þetta er mál sem þarfnast skoðunar. Ég veit til þess að margir fornbílaeigendur eru ósáttir við þetta (Forseti hringir.) og hefðu viljað skila inn athugasemdum, en einhverra hluta vegna varð það ekki raunin. Ég held að það hafi verið fyrir einhvers konar misskilning.