149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

162. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að við þingmenn vekjum oftar athygli almennings og félagasamtaka eins og fornbílaklúbbsins á því að allir hafi rétt til að skila inn umsögnum um hvaða frumvarp eða þingmál sem er, sem eru til umfjöllunar í nefndum, svo það sé sagt. Ég hlustaði hins vegar af athygli á mál hv. þm. Birgis Þórarinssonar.

Ég óskaði eftir því, herra forseti, að málið gengi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. Þá er sjálfsagt og eðlilegt að nefndin ræði hvort ástæða sé til að gera einhverjar slíkar breytingar án þess að gefa nein fyrirheit um það. Ég er að vísu almennt hlynntur því að menn varðveiti gamla hluti og gangi um þá af virðingu. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að sjá gamlan bíl sem er vel við haldið, nema þá ef vera skyldi dráttarvél. Það verður hins vegar líka að vera þannig og það er eðlilegt að slíkir bílar taki með einhverjum hætti líka þátt í því að standa undir sameiginlegum kostnaði við að reka samfélagið. Þannig að við skulum ræða þetta af fullri alvöru og hreinskilni í nefndinni og hlusta á þau rök sem hér hafa verið færð fram.