149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

162. mál
[15:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla að hafa þetta stutt. Ég gerði fyrirvara við nefndarálitið á grundvelli umhverfissjónarmiða vegna spurningarinnar um hvort vörugjöld ættu ekki að vera notuð í ríkari mæli til að hvetja til innflutnings á sparneytnari bílum. Ég veit svo sem ekki og hef ekki mjög sterka skoðun eins og er á því hvort vörugjöld per se séu rétti vettvangurinn til að hvetja til þess að hlífa náttúrunni. Það var eftiráhugsun hjá mér í nefndarstörfunum að auðvitað ætti maður að reyna að koma þessum umhverfissjónarmiðum að sem víðast. Ég fagna því að þetta mál fari aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. þannig að kannski gefst tækifæri til að ræða það aðeins frekar.

Mig grunar þó að einhvers konar hagræna hvata þurfi til að hrinda rafbílavæðingunni af stað af fullri alvöru til að draga úr hvötunum til að flytja inn óvistvæna bíla. Við erum enn mjög stungin af því að hafa upplifað hinn svokallaða Dieselgate-skandal fyrir nokkrum árum þar sem framleiðendur bíla svindluðu hreinlega með mengunarvottorðum sínum. Þó að þetta lúti ekki beinlínis að því er tilfellið hreinlega að rafbílar geta ekki svindlað á útblástursvottun og það er þó eitt af því sem við getum glaðst yfir ef rafbílavæðingin fer í fullri alvöru af stað.

Nefndinni barst ábending um ákveðið vandamál sem er fólgið í því að raunkostnaðarmunur á eldsneyti og rafmagni fyrir bíla í langakstri sé í praxís aðeins um 10% sem þýðir að efnahagslegi hvatinn til að keyra á rafmagni frekar en bensíni er bara 10%. Þessu til viðbótar eru rafbílar enn í dag töluvert dýrari og það þrátt fyrir góðan afslátt af virðisaukaskatti. Með einhverjum hætti þurfum við að hugsa heildrænt um þetta.

Það er búið að tala mikið um að það sé verið að gera hitt og þetta til að hvetja til rafbílavæðingar. Ég veit að sumir hv. þingmenn keyra um á rafbílum í dag. Við erum með mjög hátt hlutfall á Íslandi miðað við aðrar þjóðir og miðað við þann vöxt sem hefur átt sér stað. Ef hvatinn er ekki meiri en þetta þurfum við a.m.k. að ræða hvort vörugjöldum mætti kannski beita í ríkari mæli, hvort einhverjir aðrir hvatar ættu að vera bæði neikvæðir og jákvæðir en í öllu falli verður það vonandi til umræðu milli 2. og 3. umr.