149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

162. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy. Það er skemmtilegt að eiga samtal um vörugjöld í þingsal, það er lifandi efni. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað eigi að skoða vörugjöldin og eðli þeirra, alveg eins og ég held að það eigi að gera í samhengi við aðrar álögur og skatta og gjöld sem lögð eru á bílainnflutning sem og notkun bíla hér, hvort heldur það er eldsneyti eða annað.

Hér höfum við t.d. verið að ræða það hvort innleiða eigi vegtolla í ríkari mæli. Ég hef lýst því yfir að mér hugnist að menn greiði frekar fyrir notkun. Kannski eigum við að hefja þá umræðu frekar. Ég veit að hæstv. samgönguráðherra hefur það til athugunar. Ég held að allt gjaldakerfið þegar kemur að umferðinni þurfi endurskoðunar við, vörugjöldin og allt annað, en ég er hins vegar sannfærður um að ekki þurfi mikla hvata frá hendi skattkerfisins til að ná fram því markmiði að rafbílavæða Ísland á tiltölulega skömmum tíma. Það mun gerast, tæknin mun fleyta okkur þangað. Rafbílar verða ódýrari og það sem meira er, heimilisbuddan mun taka ákvörðun fyrir okkur og segja við okkur: Heyrðu, hv. þm. Smári McCarthy, nú seljum við dísiljálkana okkar og kaupum okkur rafbíl.