149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

162. mál
[15:16]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tek undir þetta. Ég keyri að vísu sjálfur um á hybrid-bíl og reyni oftast að ganga. Það er engu að síður tilfellið að í þessari umræðu, sem og flestri umræðu sem snýr að umhverfisvernd, lendum við í því að etja saman annars vegar buddum heimilanna og hins vegar umhverfissjónarmiðum. Ég óttast t.d. að vegtollar, þó að þeir geti vissulega verið tilraun til að draga úr notkun bíla, komi út sem fátækraskattur af þeirri tegund að fólk hefur oftast ekki val um hvort það keyrir í vinnuna eða ekki. Það er líka staðreynd að þeim mun lægri tekjur sem fólk hefur, þeim mun lengri verður vegalengdin milli heimilis og vinnustaðar að meðaltali. Þarna eru ákveðnir þættir sem togast á. Ég get alveg tekið undir mikilvægi vegtolla fyrir þyngri bíla, vörubifreiðar og álíka, að það væri góð hugmynd út frá umhverfissjónarmiðum og líka hreinlega út frá viðhaldskostnaði veganna.

Þegar við erum að huga að þessum hlutum held ég að jákvæðir hvatar til að aðstoða heimilin og heimilisbuddurnar við að taka þá góðu ákvörðun að leggja dísiljálknum og fá sér rafbíl sé nokkuð sem við ættum endilega að skoða. Þessi 10% munur minnkaði snarlega fyrir skömmu og kemur líklega til með að minnka meira eftir því sem orkufyrirtækin sjá í hendi sér að fleiri komist ekki af án þess að fá sér rafmagnsbíla. Á einhverjum tímapunkti verður til einhver ládeyðupunktur þar sem þeir sem eru að hugsa um að kaupa nýja rafbíla þurfa að hugsa: Kannski borgar sig að halda í dísilbílinn í nokkur ár í viðbót.

Það er þetta bil sem ég vil lágmarka.