149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

162. mál
[15:21]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er í öllu falli tilefni til mun dýpri umræðu. Vegtollar, eins og þeir hafa verið lagðir til af hæstv. samgönguráðherra og forvera hans í starfi, hugnast mér ekki í því formi sem þeir hafa verið nefndir en eins og ég segi eru einhvers konar vegtollar af þungum bifreiðum, trukkum og álíka, vel hugsanleg og sérstaklega ef við tökum tillit til þess hvort gróðurhúsaáhrif fylgi því, þ.e. losun.

Að því sögðu myndi ég gjarnan vilja að við tækjum upp þá nálgun að reyna að refsa sem minnst neytendum fyrir loftslagsmálin. Loftslagið er undirselt árás frá öllu mannkyninu en stóru fyrirtækin valda fyrst og fremst þessum skaða og það er ríkjanna að koma inn í þetta með sterkar reglur þar að lútandi. Ef við hættum að velta þessu yfir á neytendur væru það framfarir.

Síðan er kannski sýn mín á alþjóðleg viðskipti svolítið frjálslynd. Ef hv. þm. Óli Björn Kárason legði til á morgun að við afnæmum vörugjöld með öllu en veltum þeim gjöldum sem nú eru lögð á bifreiðar yfir á einhvers konar kolefnis- og útblásturstengt aukagjald sem væri þá ekki vörugjald heldur kolefnisskattur eða álíka myndi ég bara fagna. Það væri frábært. Vörugjöld eru barn síns tíma eins og hv. þingmaður segir. Þetta er óþarfaflækja og flækir alþjóðaviðskipti okkar. Okkur veitir ekki af að bæta úr þeim eftir því sem við getum.