149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

póstþjónusta.

270. mál
[15:39]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverðar spurningar. Það er alveg rétt sem kom fram. Ég veit að eftir þá vinnu sem frumvarpið hefur farið í gegnum, samráðsgátt og samskipti við ýmsa hagsmunaaðila, hafa menn úti á landi, m.a. Bændasamtökin, haft áhyggjur af því að þessi þjónusta, sem nú þegar er orðin tveir útburðardagar í viku á öllu landinu, geti valdið vandræðum, vanti menn til að mynda varahluti á skömmum tíma. Það í sjálfu sér breytist ekki við þetta. Grunnþjónustan verður sú sama. En hins vegar er rétt að benda á það auðvitað eru starfandi bæði hraðflutningafyrirtæki og landflutningafyrirtæki sem geta flutt slíkan varning, jafnvel heim í hlað, með stuttum fyrirvara, sé Íslandspóstur ekki í stöðu til þess vegna þess að dreifingardagur er eftir tvo daga eða eitthvað slíkt.

Það er líka ákvæði í frumvarpinu, það svarar annarri spurningu hv. þingmanns, sem heimilar flutningafyrirtækjum, fólksflutningafyrirtækjum, rútufyrirtækjum eða öðrum, að flytja þennan póst. Með því að afnema einkarétt Íslandspósts ohf. á þessu er verið að opna fyrir fleiri möguleika til að geta veitt betri þjónustu. Ég veit að sums staðar um landið hafa menn gripið til slíks. Í einstökum smærri bæjarfélögum hafa menn jafnvel sett upp slíka póstþjónustu. Ég held að ég kannist við að það sé þannig á Bolungarvík og það má líka nefna Blábankann á Þingeyri. Það er þannig hugsun, hvernig við getum tryggt meiri þjónustu á minni stöðum, það er verið að opna fyrir það.

Varðandi póstburðargjaldið er auðvitað hugmynd okkar með því að hafa varið milljörðum króna í ljósleiðaravæðingu landsins í dreifbýli á Íslandi að tryggja hraðvirkari rafrænar dreifileiðir og aðgengi að rafrænni þjónustu. En engu að síður er einnig skilgreint að það skuli vera sama póstburðargjald alls staðar á landinu.