149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

póstþjónusta.

270. mál
[15:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra hans framsögu. Í greinargerð með frumvarpinu segir að frumvarpið eigi sér langan aðdraganda en tildrög þess megi rekja til breytinga á reglum Evrópusambandsins á sviði póstþjónustu, sem m.a. lúta að því að opna póstmarkaðinn fyrir samkeppni með því að afnema einkarétt ríkja á sviði póstþjónustu. Þar segir einnig að eitt meginmarkmið póstlöggjafar Evrópusambandsins sé að skilgreina jafnan aðgang notenda að svonefndri alþjónustu, þ.e. grunnþjónustu á sviði póstþjónustu.

Ég veit ekki betur en að aðgangur notenda að grunnþjónustu póstsins hafi verið ágætur þegar reksturinn var í höndum ríkisins og betri en hann er í dag. Við þurfum því enn og aftur að láta Evrópusambandið segja okkur fyrir verkum í hlutum sem skipta okkur öll töluverðu máli og þá sérstaklega landsbyggðina. Enn og aftur sjáum við að ekkert er tekið tillit til aðstæðna hér á landi. Við vitum vel að það mun seint og illa verða hagnaður af því að bera út bréf á afskekktum stöðum eins og t.d. á heimili austur í Öræfum.

Norsk stjórnvöld voru lengi vel á móti því að innleiða tilskipunina og hefði verið gagnlegt að fá þau sjónarmið fram í þessari umræðu. Póstþjónusta hefur stöðugt farið versnandi hér á landi, eins og fram kom í umræðu áðan, og þá sérstaklega í dreifbýlinu. Í velflestum bæjum og þorpum voru áður fyrr pósthús. Þegar lögin frá 2002 tóku gildi og póstþjónustan var gerð að opinberu hlutafélagi, með stofnun Íslandspósts, var strax farið að loka pósthúsum og lítil póstafgreiðsluhorn opnuð á bensínstöðvum. Nú hefur þessum bensínstöðvarpóstafgreiðslustöðvum velflestum verið lokað og eitt pósthús þjónustar nú nokkur bæjarfélög. Það er því alveg ljóst að meginmarkmið póstlöggjafar Evrópusambandsins, um jafnan aðgang notenda að grunnþjónustu, hefur haft þveröfug áhrif hér á landi, rétt eins og orkupakkar Evrópusambandsins sem ríkisstjórnin er svo hrifin af. Það eina sem þessir orkupakkar hafa skilað okkur Íslendingum er hærra raforkuverð til neytenda og þá sérstaklega til íbúa á landsbyggðinni sem kynda hús sín með rafmagni. Það er annað og stærra mál sem ég mun koma inn á þegar ríkisstjórnin fer að mæla fyrir innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins hér á Alþingi.

Sveitarfélögin hafa ályktað um stöðugt versnandi póstþjónustu. Starfsfólki í póstþjónustu víða á landsbyggðinni hefur á undanförnum árum verið sagt upp störfum. Í litlum bæjarfélögum, á Kópaskeri og Raufarhöfn svo að dæmi sé tekið, hefur þetta haft mikil áhrif. Fólk sem hefur starfað í póstþjónustunni þarf jafnvel að flytja burt til þess að leita sér að atvinnu. Það hefur síðan keðjuverkandi áhrif á skólahald og fleira. Breytingar á akstri með póst á landsbyggðinni hafa verið gerðar og eru til hins verra. Áður fyrr var tekið á móti póstsendingum í sömu ferð. Dagblöð berast nú seinna en áður og fleira mætti nefna.

Það hefði verið kjörið tækifæri að bjóða fulltrúum Evrópusambandsins í vettvangsferð til Íslands og út á land til að fylgjast með póstþjónustunni eins og hún er í dag. Þá gætu þeir fengið að sjá það svart á hvítu hvernig þjónustan er, hvaða áhrif þessi tilskipun þeirra hefur haft hér á landi. Það væri gaman að vita hvort þeir myndu sætta sig við þessa þjónustu í heimalandinu; fá póstinn jafnvel einu sinni í viku, fá gömul dagblöð í póstkassann o.s.frv.

Herra forseti. Í greinargerðinni segir að Ísland sé eina ríkið á Evrópska efnahagssvæðinu sem ekki hafi afnumið einkaréttinn af póstþjónustu og innleitt þar með þriðju pósttilskipunina. Með frumvarpinu er lagt til að það verði gert. Það segir jafnframt að gert sé ráð fyrir því að alþjónusta verði eftir sem áður tryggð borgurunum og leitast við að gera það á sem hagkvæmastan hátt fyrir íslenska ríkið í takt við þarfir samfélagsins. Það verði gert á þann veg að einn eða fleiri póstrekendur verði valdir, samkvæmt reglum sem frumvarpið kveður á um, til að sinna alþjónustuskyldum.

Nú spyr ég: Er ekki viðbúið að með þessu nýja fyrirkomulagi, sem hér er lýst og boðað, haldi þjónustan bara áfram að versna?

Það eru fordæmi fyrir því að Íslandspóstur hafi samið við rekstraraðila sem stóðu sig engan veginn. Fræg er t.d. póstþjónustan sem var í Varmahlíð og á Hofsósi á sínum tíma. Þáverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, gerði sér t.d. ferð í Skagafjörðinn og skoðaði póstþjónustuna í Varmahlíð. Fannst ráðherra póstþjónustan fyrir neðan allar hellur og út í hött, eins og hann orðaði það sjálfur. Þar kom í ljós að pósturinn og jafnvel ábyrgðarsendingar voru í rekkum sem voru aðgengilegir öllum og við hliðina voru smurolíur, skrúfur, gúmmíhanskar o.fl.

Er ekki hætta á því að þessir nýju rekstraraðilar, sem stefnt er að því að semja við, láti landsbyggðina mæta afgangi? Þá kann svarið að vera, eins og segir í frumvarpinu, að til séu leiðir til að tryggja að þjónustunni sé viðhaldið. Sú staða getur alltaf komið upp og mun örugglega koma upp að þjónustan verði óviðunandi á ákveðnum svæðum. Ljóst er að fara verður samningsleiðina við þjónustuveitendur, þegar ákveðin landsvæði eiga í hlut. Brýnt er að vandað sé til verka í þeim efnum og hagsmunir neytenda hafðir að leiðarljósi. Að skipta um rekstraraðila sem ekki hefur staðið sig er einnig óhagræði fyrir neytendur.

Herra forseti. Ég óttast því miður að þetta frumvarp, sem felur það í sér að afnema einkarétt á póstþjónustu, muni leiða til þess að póstþjónusta á landsbyggðinni versni enn meir. Það hefur alltaf legið fyrir að hluti þessarar þjónustu stendur ekki undir sér en þetta er lögbundin þjónusta sem á að veita. Þar á landsbyggðin ekki að mæta afgangi.

Að lokum, herra forseti. Við viljum halda landinu í byggð og skilvirk póstþjónusta er mikilvægur hluti þess.