149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

póstþjónusta.

270. mál
[15:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér upp vegna þeirra orða hv. þm. Birgis Þórarinssonar að póstþjónusta á Íslandi hafi stöðugt farið versnandi og vill hann kenna Evrópusambandinu um það. Hann telur að Evrópusambandið, sem hann finnur greinilega allt til foráttu, hafi komið póstþjónustu hér á Íslandi svona illa. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þingmaðurinn nær að tengja þetta þannig af því að við erum jú að fjalla um þessa þriðju pósttilskipun sem varðar það að afnema einkaréttinn en hún hefur ekki tekið gildi. Það er það sem er verið að gera núna.

Ég velti því aðeins fyrir mér hvernig þingmaðurinn fær það út að það að þjónustan hafi farið svona versnandi undanfarin ár — það að staða Íslandspósts er jafn slæm og raun ber vitni og það að Íslandspóstur kenni að mörgu leyti samningum við Alþjóðapóstsambandið um bága stöðu sína — sé allt í einu Evrópusambandinu að kenna. Ég átta mig samt á því að að hv. þingmaður og hans þingflokkur kenna því ágæta sambandi um ýmislegt sem aflaga fer.