149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

póstþjónusta.

270. mál
[15:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður kom einmitt inn á það sem ég nefndi varðandi Noreg, hversu gagnlegt hefði verið að fá þá umræðu hér inn í þennan þingsal. Noregur leit svo á að það gæti ekki samræmst þeirra svæði og þeirra landsvæði að innleiða þessa tilskipun og þeir tóku sér þennan frest, eins og hv. þingmaður nefndi. Það hefði verið mjög gagnlegt að fá það inn í þessa umræðu. Kjarni málsins er sá, sem ég nefndi í minni ræðu, að ég óttast mjög að þessi breyting, þar sem þetta verður algerlega opnað, muni leiða til þess að þjónustan versni enn frekar.

Sporin hræða í þessum efnum, hv. þingmaður, það er það sem ég lagði áherslu á. Þetta er tilskipun frá Evrópusambandinu. Við vitum að hlutirnir voru með öðrum hætti. Það eru vissulega ákveðin landsvæði sem verður alltaf erfitt að þjónusta svo vel sé. Við erum það strjálbýlt land að sú staða kemur upp. En þá spyr maður sjálfan sig: Kemur það til með að verða með þeim hætti að við fáum þar lakari þjónustu með þessu eða á að fara að opna fyrir þetta og semja við einhverja aðila sem síðan standa sig ekki? Sporin hræða í þessum efnum eins og ég nefndi í ræðu minni.

Ég óttast það, og segi það enn og aftur, að þetta geti leitt til þess að þjónustan versni og við það megum við alls ekki búa. Ég ætla að vona að hv. þingmaður átti sig á því og ég held að hún geri það örugglega. Sú hætta er fyrir hendi að þjónustan versni. Eins og ég nefndi réttilega í lok ræðu minnar viljum við halda landinu í byggð og þar skiptir öflug og góð póstþjónusta verulegu máli.