149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

299. mál
[16:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og útskýringar á frumvarpinu. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra að öflug vísindasiðanefnd er afskaplega mikilvæg, en fjölbreyttar og vandaðar og góðar vísindarannsóknir einnig.

Í greinargerð með frumvarpinu um mat á áhrifum stendur, með leyfi forseta:

„Sé horft til fjölda umsókna til vísindasiðanefndar árið 2017 má gera ráð fyrir að á fyrsta ári gjaldtöku verði tekjur á bilinu 9–11 millj. kr. Áætlað er að tekjur verði hærri í upphafi en lækki þegar frá líður þegar gjaldtakan hefur fest sig í sessi og verði á bilinu 3–6 millj.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í þær tölur. Hvernig stendur á því að gert er ráð fyrir að þetta lækki svona skarpt? Er það vegna áhrifa gjaldtökunnar á hvata til að rannsaka eða hvað? Ég vil biðja hæstv. ráðherra að fara yfir það. Í leiðinni vil ég spyrja hvort metin hafi verið áhrif á háskólana sérstaklega og aðra rannsakendur, því að um leið og við viljum öfluga vísindasiðanefnd viljum við ekki að gjaldtakan sé þannig að það hafi fælandi áhrif og verði til að vísindarannsóknirnar verði fátæklegri.