149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

299. mál
[16:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ástæðan fyrir breytingunni sem gert er ráð fyrir í matinu er fyrst og fremst sú að þegar um er að ræða fyrstu umsóknir er gert ráð fyrir að stór hluti þeirra umsókna sé vegna breytinga á áformum. Væntanlega mun þessi löggjöf hafa þau áhrif í grunninn, vegna þess að sérstakt gjald er fyrir breytingu á vísindarannsókn, að upphaflega umsóknin og rannsóknaráformin verði skýrari en ella er. Gert er ráð fyrir því að það sé fyrst og fremst ástæðan, að sá kúfur klárist til að byrja með eða verulega gangi á hann.

Fjöldinn sem gert er ráð fyrir er miðað við gögn ársins 2017, en þar er talað um að ný verkefni hafi verið 216 og þar af gjaldhæf verkefni 106 og á árinu 2017 voru samþykktar 307 breytingar við áður samþykktar umsóknir. Það skýrir í raun og veru samspil annars vegar heildarmats á tekjum á fyrsta ári og hins vegar hverjar ástæður þess eru að þær tekjur fari lækkandi.