149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

299. mál
[16:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég spurði um áhrif á háskóla. Kannski eru þau óveruleg en ég bið hæstv. ráðherrann að koma inn á það ef tími er til í næsta andsvari eða svari við spurningum mínum.

Þetta frumvarp fer til hv. velferðarnefndar til vinnslu en þar inni er einnig annað frumvarp sem fjallar um breytingar á sömu lögum, um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, ekki vegna þess að ég haldi að hæstv. ráðherrar hafi áhrif á það hvernig þingnefnd vinnur, heldur vegna reynslu hennar sem þingmanns, hvort hún telji ekki sjálfsagt og eðlilegt þegar breytingar eru í sömu nefnd um sama frumvarp um að málin séu unnin samhliða. Það ætti ekki að vera þannig að annað gangi framar hinu heldur ætti að vinna málin samhliða þegar unnar eru breytingartillögur á sömu lögum. Tvö frumvörp eru í nefndinni, annað um gjaldtöku og heimild til reglugerðar varðandi gjaldtöku vísindasiðanefndar og hitt um hvernig fara eigi með niðurstöður vísindarannsókna og gagnarannsókna. Telur hæstv. ráðherrann ekki, og þá vísa ég til þingreynslu hennar, að upplagt sé að taka málin saman?