149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

299. mál
[16:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst, ef ég byrja á öfugum enda, ef svo má að orði komast, þá lýsir hv. þingmaður áhyggjum yfir því að nemendarannsóknir séu ekki nægilega vel skilgreindar hér. Í umsögn heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands um frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands vill koma þeirri ábendingu á framfæri að gjaldtaka vegna nýrra leyfa verði að vera engin eða mjög hófstillt vegna vísindarannsókna námsmanna (grunnnema og framhaldsnema).“

Ég tel að ef þessi skilgreining dugar Háskóla Íslands og heilbrigðisvísindasviði þá ætti það að duga Alþingi. En ef hv. velferðarnefnd telur að gera þurfi betur í þeirri skilgreiningu þá treysti ég henni til þess.

Hv. þingmaður spyr hvað þurfi, hvor talan það er sem þarf til að standa straum af rekstri nefndarinnar. Því er til að svara að þetta eru auðvitað viðmiðunarfjárhæðir, en grundvöllurinn er sá að þarna er miðað við tímagjald, þá raunverulegu vinnu sem nefndin þarf að inna af hendi. Ef hún þarf að inna af hendi mikla vinnu sem tengist breytingum á rannsóknum þá kostar það og það er innheimt í gjaldinu.

Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að það falli þarna einhverjar rannsóknir milli skips og bryggju. Í drögum að reglugerð sem mun verða í samráðsgáttinni í kjölfarið á þessu máli, ljúki Alþingi málinu, þá gerum við ráð fyrir þremur flokkum og sá flokkur sem verður þá ódýrastur er sá þar sem um er að ræða þá stöðu að ekki sé um bakhjarl að ræða. Samkvæmt umsögn vísindasiðanefndar sjálfrar þá eru þetta örfáar rannsóknir, mögulega bara ein á ári.